Erlent

Hver er Melania Trump?

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Melania Trump verður næsta forsetafrú Bandaríkjanna eftir sigur eiginmanns hennar í forsetakosningunum í nótt.
Melania Trump verður næsta forsetafrú Bandaríkjanna eftir sigur eiginmanns hennar í forsetakosningunum í nótt. vísir/epa

Melania Trump verður næsta forsetafrú Bandaríkjanna eftir sigur eiginmanns hennar, Donalds Trump, í kosningunum í nótt. Hún verður fyrsta útlenda konan sem mun gegna þessu starfi frá því að John Quincy Adams var forseti Bandaríkjanna árin 1825 til 1829, en eiginkona hans var Louisa Adams frá Englandi.

Melania Trump, áður Melania Knauss, er fædd í Slóveníu árið 1970. Hún ólst upp í Sevnica en fluttist þaðan til Ljubljana til þess að nema hönnun og ljósmyndun í menntaskóla.

Trump hjónin kynntust í veislu árið 1998. Melania fékk græna kortið árið 2001 og gekk að eiga Donald árið 2005. Árið 2006 fékk hún bandarískan ríkisborgararétt og átti son sinn Barron.vísir/epa

Melania starfaði sem fyrirsæta en hún hóf feril sinn sextán ára gömul og hefur birst á forsíðum stærstu tímarita heims á borð við Bazaar, Vanity Fair og GQ. Hún á eigin skartgripa- og húðlínu og talar fimm tungumál; slóvensku, serbnesku, ensku, frönsku og þýsku.

Sjá einnig: Þetta er fólkið sem mun fylgja Donaldi Trump í Hvíta húsið

Trump hjónin kynntust í veislu í september 1998. Þau giftu sig árið 2005 og var brúðkaupið, líkt og við var að búast, með því glæsilegasta. Melania skartaði 100 þúsund dollara brúðarkjól sem hannaður var af Christian Dior og voru Bill og Hillary Clinton á meðal veislugesta.

Melania á eigin skartgripa- og húðlínu og talar fimm tungumál; slóvensku, serbnesku, ensku, frönsku og þýsku.vísir/epa

Melania og Trump áttu sitt fyrsta barn árið 2006, drenginn Barron. Það sama ár fékk Melania bandarískan ríkisborgararétt, en hún fékk græna kortið árið 2001.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar staðreyndir sem teknar hafa verið saman um næstu forsetafrú Bandaríkjanna.

1. Melania talar fimm tungumál; slóvensku, ensku, frönsku, serbnesku og þýsku.

2. Melania verður fyrsta útlenda konan sem verður forsetafrú Bandaríkjanna frá árinu 1825.

Brúðkaup Trump-hjónanna var með glæsilegasta móti, en Hillary og Bill Clinton voru á meðal veislugesta. Hér má sjá trúlofunarhring hennar.vísir/epa

3. Hún er óvinsælasta maki forsetaframbjóðanda frá því að Hillary Clinton var forsetafrú, samkvæmt skoðanakönnun Washington Post og ABC.

4. Melania ráðleggur Donaldi oft í stjórnmálum. „Ég segi honum skoðanir mínar, mjög, mjög oft,“ sagði hún í samtali við CNN. „Ég er ekki sammála öllu sem hann segir, en það er eðlilegt. Ég er eigin persóna, segi honum hvað mér finnst og stend föst á mínum skoðunum.“

5. Hún þolir ekki að eiginmaður sinn skuli nota Twitter.

Melania kemur ekki oft fram í viðtölum, og hafa erlendir fjölmiðlar lýst henni sem „þögla makanum“.vísir/epa

6. Mótframbjóðandi Trump, Hillary Clinton, og eiginmaður Hillary, Bill, voru á meðal veislugesta í brúðkaupi Trump hjónanna árið 2005.

7. Melania hefur verið verðlaunuð af Rauða krossinum fyrir störf sín í þágu góðgerðarmála.

8. Melania var sökuð um að hafa stolið hluta af ræðu Michelle Obama á landsþingi Repúblikana í júlí. Ræðuhöfundur hennar viðurkenndi síðar að hafa notast við kafla úr ræðu Obama, og baðst afsökunar.

9. Melania hefur verið grunuð um að hafa komið ólöglega til Bandaríkjanna, en hún sjálf fullyrðir þó annað. Fréttastofa AP segist hafa heimildir fyrir því að Melania hafi fengið greitt fyrir allt tíu verkefni á tímabilinu 10. september til 15. október 1996, þegar hún mátti ekki starfa í landinu.

10. Melania kemur ekki oft fram í viðtölum, og hafa erlendir fjölmiðlar lýst henni sem „þögla makanum“.


Tengdar fréttir

Sigurræða Trump í heild sinni

Donald Trump var sigurreifur er hann hélt sigurræðu sína fyrir stuðningsmenn sína á kosningavöku Trump í New York




Fleiri fréttir

Sjá meira


×