Erlent

Telja mannrán knattspyrnumanns blekkingarleik ríkisstjórans

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Alan Pulido er leikmaður knattspyrnuliðsins Olympiakos.
Alan Pulido er leikmaður knattspyrnuliðsins Olympiakos. Nordicphotos/AFP
Eitt mest lesna dagblað Mexíkós, Reforma, veltir upp þeirri spurningu hvort mannránið á knattspyrnumanninum Alan Pulido á sunnudaginn hafi verið blekkingarleikur stjórnvalda í mexíkóska fylkinu Tamaulipas, þar sem mannránið fór fram. Fleiri fjölmiðlar á borð við El Universal og Exélsior hafa einnig fjallað um þá hugmynd.

Kosið verður til embættis ríkisstjóra í fylkinu þann fimmta júní en Egidio Torre Cantú, núverandi ríkisstjóri, hefur eignað stjórn sinni heiðurinn af björgun Pulido.

Fjórir vopnaðir menn rændu Pulido á sunnudag en skildu kærustu hans eftir. Þá fóru þeir með hann í tómt hús þar sem honum var haldið. Að sögn yfirvalda í Tamaulipas á Pulido, sem er um 170 sentimetrar á hæð og rúm sextíu kíló, að hafa yfirbugað eina mannræningjann sem enn var á staðnum, tekið byssu hans og hringt á lögregluna úr sínum eigin farsíma og gefið henni upp heimilisfang hússins.

Öryggissérfræðingurinn Alejandro Hope hjá mexíkósku ríkislögreglunni segir atburðarásina undarlega. „Annaðhvort var Alan Pulido fórnarlamb vanhæfustu mannræningja heims eða þá að eitthvað er gruggugt við atburðarásina. Mannræningjarnir eru sagðir svo heimskir að þeir bundu hvorki fyrir augu hans né hendur og tóku ekki af honum símann,“ sagði Hope.

Þá segir Ciro Gómez Leyva, blaðamaður El Universal, margt skrítið við málið. Pulido hafi verið leyft að ganga frjáls um húsið, hafi vitað hvar hann var staddur og að mannræninginn hafi verið handtekinn án mótspyrnu. Atferlið sé dæmalaust á meðal mexíkóskra mannræningja.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×