Erlent

Átta íranskar Instagram fyrirsætur handteknar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Lög eru í Íran sem skylda konur til að klæðast slæðu á almannafæri.
Lög eru í Íran sem skylda konur til að klæðast slæðu á almannafæri. vísir/getty
Átta manns úr íranska fyrirsætubransanum hafa verið handteknir. Þeim er gefið að sök háttalag sem er, að sögn saksóknara, óíslamskt. Þetta kemur fram á vef BBC.

Fyrirsæturnar, sem allar eru kvenkyns, höfðu meðal annars gerst sekar um að setja myndir á Instagram sem sýna þær án þess að klæðast slæðu. Í Íran eru í gildi lög sem skylda konur til að klæðast slæðu á almannafæri.

Tilkynnt var um handtökurnar í ríkissjónvarpi landsins í gær. Í yfirlýsingu saksóknarans Javad Babaei kom fram að brot kvennanna fælu í sér „ógn gegn siðferði fólks“ og gætu mögulega ógnað eðlilegu fjölskyldulífi.

Auk kvennanna átta eru 170 manns á lista lögreglunnar yfir mögulega afbrotamenn á þessu sviði. Í þeim hópi eru ljósmyndarar, förðunarfræðingar og tískuverslanaeigendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×