Erlent

Aprílmánuður sá hlýjasti í sögunni

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hitastig sjávar hækkar og hækkar.
Hitastig sjávar hækkar og hækkar. Vísir/Getty
Aprílmánuður var sá hlýjasti í sögu jarðar samkvæmt nýjum gögnum NASA. Allt stefnir í að 2016 verði heitasta ár sögunnar og það með yfirburðum. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir umhverfið enda má kenna loftslagsbreytingum um hlýindin.

CNN fjallar um málið í dag.

Gögn NASA leiða í ljós að hitastig sjávar er 1,11 gráðu hærra en meðaltal apríl mánaðar á árunum 1951 til 1980 en það er talan sem NASA notar í rannsóknum sínum á loftslagsbreytingum. Í sjö mánuði í röð hefur þetta verið raunin, að hitastig sjávar er að minnsta kosti einni gráðu heitara en fyrrnefnt meðaltal.

Vísindamenn hafa vegna þessa lýst yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Parísarsamkomulagið var undirritað í síðasta mánuði en samkomulagið snýst meðal annars um að tryggja að hnattræn hlýnun verði innan við tvær gráður og að reynt verði að halda henni innan við eina og hálfa gráðu.


Tengdar fréttir

Samkomulag um loftslagsmál undirritað í gær

Parísarsamkomulagið, samkomulag um loftslagsmál sem komist var að í París á síðasta ári, var undirritað í húsnæði Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra undirritaði samkomulagið fyrir hönd Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×