Innlent

Lögmaðurinn svarar fyrir sig: „Ég mun að sjálfsögðu halda mínu striki“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Steinbergur Finnbogason var úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við fjársvikamál í síðustu viku. Hann er nú laus úr varðhaldi líkt og hin þrjú.
Steinbergur Finnbogason var úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við fjársvikamál í síðustu viku. Hann er nú laus úr varðhaldi líkt og hin þrjú.
„Í síðustu viku var lögmaður handtekinn og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Það var ég.“ Á þessum orðum hefst innsend grein héraðsdómslögmannsins Steinbergs Finnbogasonar í Fréttablaðinu í dag.

Í síðustu viku var Steinbergur úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn héraðssaksóknara á peningamisferli. Þrír aðrir voru handteknir vegna málsins. Athygli vakti að lögmaðurinn var handtekinn þegar hann mætti í skýrslutöku hjá umbjóðanda sínum.

„Til viðbótar var það gert að frétta- og fyrirsagnarefni að lögmaðurinn væri með gamla dóma á bakinu fyrir skjalafals. Lesist sem glæpamaður. Dómur fjölmiðla var fallinn,“ skrifar Steinbergur. Þar vísar hann til umfjöllunar fjölmiðla, þar á meðal Vísis, um tvo dóma sem hann hlaut á sautjánda aldursári fyrir skjalafals auk átta mánaða skilorðsbundins dóms í upphafi þessarar aldar einnig fyrir skjalafals.

Í grein sinni rekur lögmaðurinn það hvernig áhugi fjölmiðla hafi verið minni á því að þriggja daga gæsluvarðhaldið hafi ekki verið nýtt til fulls. Þá hafi því einnig verið sleppt að undanfarin átján ár hafi hann verið edrú, lokið laganámi og lifað í „ágætri sátt við bæði sjálfan mig og samfélagið.“

„Eftir krassandi frétt með hraustlegum uppslætti beinist kastljósið svo að næsta máli. Eftir sitja „gömlu umfjöllunarefnin“ gjarnan með sárt ennið og fá ekki rönd við reist. Ég er eitt þeirra. Eitt af mörgum,“ ritar Steinbergur.

Í niðurlagi greinarinnar þakkar hann stuðning vina og viðskiptavina sinna síðustu daga. Hann muni halda sínu striki þó það muni líklegast ekki þykja fréttnæmt.


Tengdar fréttir

Einskiptisáhugi

Í síðustu viku var lögmaður handtekinn og í kjölfarið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Það var ég. Eðlilega þótti málið fréttnæmt enda væntanlega fá – ef nokkur – dæmi þess að lögmaður sem mætir í venjulega skýrslutöku




Fleiri fréttir

Sjá meira


×