Framkvæmd verkefnisins var með þeim hætti að fjögur teymi voru mynduð, sem unnu með ólík sérsvið á borð við upplifunarhönnun, grafíska hönnun, vöruhönnun og fatahönnun. Auk þríeykisins taka þau Attikatti, Ragnar Vilberg Bragason, Helga Björg Jónasardóttir, Atli Viðar Engilbertsson, Mundi Vondi og Sindri Ploder þátt í sýningunni.
Sáu þau Erla Björk, sem jafnframt er listamaður hátíðarinnar, og Kristján um að sauma út í efni sem fatahönnuðurinn Eygló sendi þeim á Sólheima. „Þau gerðu mestu vinnuna,“ bendir Eygló á og heldur áfram: „Þau höfðu algjörlega frjálsar hendur og sáu um að sauma út í efnið sem ég svo setti á kjólana. Þetta samstarf var furðu auðvelt, ég bjóst við að þetta yrði flott en útkoman kom mér samt mjög skemmtilega á óvart. Það er sannur heiður að fá að vinna með þessum listamönnum.“

„Vanalega vinn ég bara fyrir sjálfa mig svo það var mjög skemmtilegt að taka einhvern aðeins annan pól í það sem maður er að gera. Ég hafði aldrei hitt þau og vissi í raun ekkert út í hvað ég var að fara. Þau tóku tvær til þrjár vikur í þetta og ég er mjög ánægð með samstarfið.“ Þau Kristján og Erla Björk taka í sama streng og samsinna bæði er þau eru spurð um hvort samstarfið hafi gengið vel.
Þau eru svo sem engir aukvisar þegar kemur að saumaskap og hafa lengi vel mundað nálarnar. „Ég hef alltaf verið dugleg að sauma og sauma myndir líka,“ segir Erla og viðurkennir að henni þyki mjög gaman að vera titluð listamaður hátíðarinnar. „Líður vel og finnst það gaman.“
Aðspurður hvort hann, líkt og Erla Björk, hafi alltaf verið öflugur við saumaskapinn svarar Kristján hógværðin uppmáluð:
„Ég get ekki dæmt um það, aðrir verða að dæma um það.“ En bætir svo við að allan sinn innblástur sæki hann í tónlistina, enda mikill tónlistarunnandi. Skyldu þau áætla frekari umsvif innan hönnunarbransans með Eygló? „Nei, ég býst ekki við því,“ svarar Kristján að lokum, býsna ánægður með árangurinn að svo stöddu.