Fótbolti

Aron Einar: Held að þetta verði svipað og þegar Áramótaskaupið er í gangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. Vísir/Vilhelm
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var í skemmtilegu viðtali hjá Kjartani Atla Kjartanssyni og Hjörvari Hafliðasyni í Brennslunni í morgun.

Aron Einar ræddi um undirbúninginn fyrir Evrópumótið í knattspyrnu í sumar en líka um aðra hluti eins og Mottumars.

Aron er nefnilega í samstarfi við Guðjón Val Sigurðsson um að safna pening fyrir Krabbameinsfélagið í formi pizzu-kepppni milli þeirra félaga á Íslensku flatbökunni.

„Ég er mikill pizzu-maður en maður verður að passa upp á líkamann og sérstaklega þegar maður er að eldast í þessu," sagði Aron Einar sem var í miklu stuði í viðtalinu.

Pizzu-keppnin landsliðsfyrirliðanna var rædd frekar en svo barst talið að sögulegum skrefum íslensku landsliðsstrákanna á Evrópumótinu í Frakklandi.

„Þetta er stórmál og það eru allir að tala um þetta. Það reyna sem flestir að koma út til að styðja við bakið á okkur. Ég held að þetta verði svipað og þegar Áramótaskaupið er í gangi því það verður ekki bíll á götunum þegar við erum að spila," sagði Aron Einar.



Þetta verður bara veisla

Hvernig er að vera spila með Cardiff vitandi af því að Evrópumótið er framundan?

„Það spilar smá inni en ég held að leikmenn séu klárir og staðráðnir í að klára tímabilið með félagsliðunum. Maður verður að gera það því ef að maður er með hugann við eitthvað annað þá dettur maður úr liðinu og þá er maður ekki í leikæfingu. Það er mjög mikilvægt að koma inn á EM klár og í góðu formi. Þetta verður bara veisla," sagði Aron.

Gylfi Þór Sigurðsson er að spila sérstaklega vel fyrir Swansea þessa dagana.

„Það er virkilega mikilvægt fyrir okkur. Hann er einn af mikilvægari leikmönnunum og þegar hann er í toppformi þá tikkum við betur. Það segir sig sjálft," segir Aron Einar en hann talaði um fleiri leikmenn.

„Það eru fullt af leikmönnum að banka á dyrnar og það er virkilega gaman og gott að hafa aukna breidd. Svo veit maður aldrei hvað Lars kemur til með að gera, hvort að hann haldi í hefðina og taki bara sama hóp sem hefur reynst honum vel. Það verður að koma í ljós. Það er sterkt að við séum flest allir að spila fyrir okkar félagslið og erum að gera það vel," segir Aron Einar.

„Þegar við mætum í landsliðsverkefnin þá vitum við alveg hvað við erum að fara að gera. Það er það eina sem skipti máli en ekki hvort þú sért að fara á kostum sem félagsliði þínu eða ekki. Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að það skiptir ekki öllu máli," segir Aron Einar.

Vísir/Vilhelm
Var að spjalla um þetta við Lars

Hvernig lítur það út að vera í hópi 30 karlmanna sem verða saman á hóteli í margar vikur eins og þetta verður á EM í sumar?

„Ég talaði við Lars og við vorum eitthvað að spjalla um þetta. Hann ætlar að taka þetta fyrir á fundi þegar við hittumst í Danmörku. Hann hefur reynslu af þessu, hefur farið á stórmót með Svíþjóð og Nígeríu og veit alveg hvað hann er að fara út í," segir Aron en landsliðsfyrirliðinn sagði líka frá því að það eru alltaf sömu herbergisfélagar í landsliðsferðunum.

„Ég er alltaf með Rúrik og við sofum næstum því hlið við hlið,“ sagði Aron Einar léttur en bætti við: „Þú hefur valkost. Þú getur verið einn í herbergi því við erum með hótelið alveg útaf fyrir okkur. Ef þú verður orðinn þreyttur á herbergisfélaganum þá getur þú farið í einstaklingsherbergi. Ég held að flest allir komi til með að byrja með herbergisfélaga og svo bara sjá til hvað gerist," segir Aron Einar.

Stór hluti liðsins fékk reynslu af stórmóti þegar þeir fóru saman á EM 21 árs liða.



Fengu smjörþefinn í Danmörku

„Við fengum smá smjörþef af þessu í Danmörku en ég held samt að þetta sé ekkert líkingu við það, bæði hvað varðar áhuga á þessu og fleira. Ég held að þetta verði allt annað batterí en við fengum smjörþef af því hvernig er að vera kringum hvern annan svona lengi," sagði Aron Einar.

„KSÍ hefur enga reynslu af þessu og þar eru allir að gera þetta í fyrsta skiptið. Við verðum að sýna því smá þolinmæði. Þeir eru að læra eins og við leikmennirnir. Það er mikilvægt að hafa Lars þarna sem hefur gengið í gegnum þetta áður og veit alveg hvað hann er að fara út í. Vonandi er hann að hlusta og hefur ekki alltof marga fundi eins og vanalega," sagði Aron Einar.

Það er hægt að hlusta á allt viðtalið við Aron Einar Gunnarsson í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×