Erlent

Elstu rituðu skjöl Bretlands fundust í hjarta Lundúna

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða viðarbúta sem dýft var í vax og skrifuðu Rómverjar í vaxið.
Um er að ræða viðarbúta sem dýft var í vax og skrifuðu Rómverjar í vaxið. Vísir/AFP
Fornleifafræðingar fundu 405 rituð skjöl sem eru tæplega tvö þúsund ára gömul í Lundúnum. Um er að ræða viðarbúta sem dýft var í vax og skrifuðu Rómverjar í vaxið. Oft voru rispurnar það djúpar að sjá má hvað var skrifað á viðinum sjálfum. Einn þeirra er dagsettur 8. janúar árið 57. Innan við fjórtán árum eftir innrás Rómverja í Bretland.

Af skjölunum 405 er búið að þýða 87 þeirra. Fyrir þennan fund höfðu einungis 19 viðarbútar fundist í borginni. Meðal skjalanna má finna greiðsluseðla, dómsskjöl og margt fleira. Yfirmaður rannsóknarinnar segir skjölin vera nokkurs konar tölvupósta Rómarveldis.

Fornleifafræðingarnir voru að störfum í fjármálahverfi Lundúna í hálft ár og fundu þeir rúmlega fimmtán þúsund gripi. Þar á meðal skartgripi, skó, bein og krukkur.

Skjölin eru sögð varpa ljósi á fyrstu ár höfuðborgar Bretlands, sem byggð var af Rómverjum, með orðum íbúa hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×