Skoðun

Efasemdir um læsisátak

Brynhildur Pétursdóttir skrifar
Ég er verulega gagnrýnin á læsisátak menntamálaráðherra; þjóðarátak um læsi sem mun kosta 132 milljónir kr. á ári í 5 ár samkvæmt svari sem ég fékk nýlega frá menntamálaráðuneytinu. Stærsti kostnaðarliðurinn snýr að ráðningu læsisráðgjafa sem ferðast um landið og eiga að ráðleggja kennurum. Einnig er unnið að þróun skimunarprófa hjá Menntamálastofnun og gerð heimasíðu svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur stór hluti ráðgjafanna sagt upp störfum og samkvæmt fréttum tekur aðeins lítill hluti sveitarfélaga þátt í átakinu. Ég hef á tilfinningunni að þessi ráðstöfun á almannafé sé afar misráðin og skili ekki tilætluðum árangri. Ég velti líka fyrir mér hvort að „átak“ þurfi endilega að kosta hundruðir milljóna. Ef markmiðið er að efla lestrarkennslu er örugglega hægt að gera það með samstilltu átaki sem rúmast innan þess fjármagns sem við setjum nú þegar í grunnskólana og Menntamálastofnun.

Á sama tíma og ráðherra er reiðubúinn að setja meira en 600 milljónir í læsisátakið eru útgjöld á hvern nemanda á bæði framhaldsskólastigi og háskólastigi hér á landi undir meðaltali OECD-ríkjanna og mun lægri en annars staðar á Norðurlöndum. Ég hefði haldið að það væri forgangsatriði að tryggja fjármuni í menntakerfið eftir langvarandi niðurskurð og því kemur á óvart að til séu peningar í nýtt verkefni. Verkefni sem mér finnst ekki nógu vel skilgreint en ég hef ítrekað kallað eftir að fá í hendur þá verkáætlun sem lá til grundvallar áður en því var hleypt af stokkunum.

Átakið hófst árið 2015 og er ætlað að standa í fimm ár eins og áður sagði. Mikilvægt er að menntamálaráðherra sé á hverjum tíma óhræddur við að greina hvort þessi fjárútlát séu að skila tilætluðum árangri. Það er jú á hans ábyrgð að þeir takmörkuðu peningar sem settir eru í menntakerfið nýtist sem best.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júní




Skoðun

Sjá meira


×