Erlent

ISIS hótar árásum á sádi-arabísk fangelsi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Aftökunum var mótmælt harðlega í Íran.
Aftökunum var mótmælt harðlega í Íran. vísir/epa
Íslamska ríkið hefur hótað því að eyðileggja sádi-arabísk fangelsi sem vista handtekna hryðjuverkamenn. Yfirlýsingin kemur í kjölfar þess að stjórnvöld í landinu aflífuðu 47 menn, þar af 43 meðlimi al-Kaída, í upphafi ársins. Þetta kemur fram á Reuters.

Samtökin hafa lýst yfir ábyrgð á árásum sem hafa átt sér stað í landinu og eru að auki virk í nágrannaríkinu Jemen. Samkvæmt þeim munu al-Ha‘ir og Tarfiya fangelsin vera aðalskotmörk þeirra en margir meðlimir al-Kaída og ISIS eru vistaðir þar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem al-Ha‘ir fangelsið er skotmark samtakanna en sjálfsvígssprengjumaður frá þeim sprengdi sig í loft upp skammt frá því í júlí síðastliðnum.

„Íslamska ríkið stefnir ávallt að því að frelsa fanga. Við sjáum hins vegar ekki fyrir endann á þessu vandamáli nema harðstjórn einræðisherra í Sádi-Arabíu verði útrýmt og þarlend fangelsi jöfnuð við jörðu,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

ISIS og al-Kaída hafa í gegnum tíðina fordæmt árásir hvors annars. Bæði eiga þó sameiginlegan óvin í Sádi-Arabíu sem hefur fangelsað marga tengda báðum samtökum.


Tengdar fréttir

Íranir senda Sádum tóninn

Segja Sáda ekki geta "falið glæp sinn“ með því að slíta samskiptum við Íran.

Öryggisráðið fordæmir árásir á sendiráð Sáda

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmir árásir á sendiráð Sádí Arabíu í Teheran í Íran síðustu daga. Þetta var samþykkt í gærkvöldi en í yfirlýsingunni er ekkert minnst á aftöku Sáda á Shía klerkinum Nimr al-Nimr, sem er ástæða árásanna á sendiráðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×