Viðskipti innlent

Selja á stöðugleikaeignir í opnu ferli

Ingvar Haraldsson skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt talsverðan áhuga á ákveðnum óskráðum eignum sem komust í ríkiseigu með stöðugleikaframlögum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur sagt talsverðan áhuga á ákveðnum óskráðum eignum sem komust í ríkiseigu með stöðugleikaframlögum. vísir/anton brink

Þær eignir sem ríkið fékk afhentar með stöðugleikaframlögum föllnu bankanna á að selja í opnu útboði.



„Sala eða ráðstöfun skal eiga sér stað að undangengnu opnu tilboðsferli þar sem gætt er gagnsæis og jafnræðis bjóðenda,“ segir í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins um eignasölu í gegnum félagið Lindarhvol ehf.



Félagið var stofnað í apríl, á að hafa umsjón með sölu eignanna sem féllu ríkinu í skaut, að undanskildum Íslandsbanka sem heyrir undir Bankasýslu ríkisins.



Félagið hefur þegar hafið störf en í stjórn þess sitja Þórólfur Arason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti, og Haukur C. Benediktsson, forstöðumaður Eignasafns Seðlabanka Íslands.



Við umsýslu, fullnustu og sölu eignanna á að leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni samkvæmt svari ráðuneytisins. „Með hagkvæmni er átt við að leitað sé hæsta verðs eða markaðsverðs.“



Þá segir jafnframt að almenna reglan verði opið söluferli, bæði við sölu óskráðra og skráðra eigna.



Skráðar eignir verði seldar í gegnum Kauphöll að undangengnu ferli þar sem söluaðili verður valinn.



„En óskað verður eftir tilboðum í söluþóknun vegna sölu á umræddum eignum og lægsta tilboði verður tekið.“



Áætlað er að eignirnar sem Lindarhvoll hefur umsjón með sölu á séu metnar á um 60 milljarða króna. Þar á meðal er hlutur í 16 hlutafélögum, t.d. í Sjóvá, Reitum, Dohop, Lyfju, Símanum og Eimskipum auk skuldabréfa á Arion banka, Hitaveitu Suðurnesja og ríkissjóð og Lánasjóð sveitarfélaganna.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×