Enski boltinn

Man. Utd og Arsenal hafa sýnt Toure áhuga

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Toure og Guardiola eru ekki vinir þessa dagana.
Toure og Guardiola eru ekki vinir þessa dagana. vísir/getty
Hinn foxilli umboðsmaður Yaya Toure, Dimitri Seluk, er farinn að skoða ný félög fyrir skjólstæðing sinn.

Toure var ekki valinn í Meistaradeildarhóp Man. City í vetur og virðist ekki eiga mikla framtíð hjá félaginu.

Seluk reiddist mjög er þetta val Pep Guardiola, stjóra City, var opinberað og nú þarf hann að finna nýtt lið fyrir sinn mann.

Umbinn segir að bæði Man. Utd og Arsenal hafi sýnt Toure áhuga. Einnig hafi komið tilboð frá Kína, Tyrklandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Toure fór þó ekki neitt fyrr en í janúar enda félagaskiptaglugginn lokaður.

Toure verður samningslaus næsta sumar og Seluk segir ekki ólíklegt að þeir gangi frá samningi við nýtt félag í janúar. Yaya er þó líklegur til þess að klára samninginn við City enda á afar góðum launum hjá félaginu.

„Hann má semja við nýtt félag í janúar þó svo hann gangi ekki í raðir þess félags fyrr en næsta sumar. Hann mun fá fullt af tilboðum frá mörgum löndum,“ sagði Seluk.

„Hann er í frábæru formi og ég held að hann hafi misst sjö kíló. Það er kannski ekki nógu gott fyrir Guardiola en við megum ekki gleyma því að Zlatan var ekki einu sinni nógu góður fyrir hann.“

Seluk segir að þó svo það sé áhugi frá Man. Utd og Arsenal þá sé útilokað að hann fari þangað. Stuðningsmenn Toure muni aftur á móti hætta að halda með City.

„Man. City mun tapa milljónum stuðningsmanna í Afríku. Nú munu þeir styðja Man. Utd. Fullt af fólki í Afríku segist aldrei ætla að horfa aftur á City í sjónvarpinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×