Enski boltinn

Owen: Fór til Man Utd því Liverpool vildi mig ekki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Owen skoraði 158 mörk í 297 leikjum fyrir Liverpool.
Owen skoraði 158 mörk í 297 leikjum fyrir Liverpool. vísir/getty
Michael Owen segir að hann hafi farið til Manchester United sumarið 2009 því Liverpool, uppeldisfélag hans, vildi ekki fá hann.

Owen skoraði 158 mörk í 297 leikjum fyrir Liverpool áður en hann fór til Real Madrid sumarið 2004. Í nýútkominni bók, Ring of Fire, greinir hann frá því að hvert einasta sumar eftir að hann fór frá Liverpool hafi hann dreymt um að snúa aftur á Anfield.

„Hvert einasta sumar ræddi ég við Carra [Jamie Carragher] um að finna leið til að koma mér aftur til Liverpool,“ segir Owen í bókinni.

Það varð þó aldrei neitt af endurkomu hans, vegna ýmissa ástæðna.

„Alltaf þegar ég var laus var Liverpool með of marga framherja. Og þegar Liverpool vildi fá mig var ég meiddur. Á endanum var ég ekki sami leikmaður og ég hafði verið og þeir höfðu einfaldlega ekki áhuga á mér. Ég var ekki nógu góður,“ segir Owen sem fór til Newcastle United frá Real Madrid 2005.

Owen lék í fjögur ár með Newcastle en hann fór frá liðinu eftir að það féll vorið 2009. Owen vildi snúa aftur til Liverpool en endaði hjá erkifjendunum í Manchester United.

„Þegar það var ljóst að [Rafa] Benítez vildi ekki semja við mig talaði ég aftur við [Sir Alex] Ferguson. Hann hafði mikinn áhuga á að fá mig,“ sagði Owen sem spilaði lítið hjá United og endaði svo ferilinn hjá Stoke tímabilið 2012-13.

Owen fékk lítið að spila hjá Manchester United.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×