Erlent

Vill að neyðarástandi verði lýst yfir

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá flóttamannabúðum í Idomeni, við landamæri Grikklands og Makedóníu.
Frá flóttamannabúðum í Idomeni, við landamæri Grikklands og Makedóníu. vísir/epa
Héraðsstjóri í norðurhluta Grikklands hefur óskað eftir því að lýst verði yfir neyðarástandi við landamæri Grikklands og Makedóníu vegna vaxandi flóttamannastraums. Að minnsta kosti þrettán þúsund manns eru nú í búðum við landamærin sem ætlaðar eru tvö þúsund manns.

Skilyrði við landamærin eru afar slæm og skortur er á öllum helstu nauðsynjum, að sögn héraðsstjórans, Apostolos Tzitzikostas. Lýsa þurfi yfir neyðarástandi svo stjórnvöld útvegi þessar nauðsynjar. Hann býst við að fjöldinn muni aukast til muna á næstu dögum,

Yfir 125 þúsund flóttamenn hafa komið til Grikklands það sem af er þessu ári, sem er tólf sinnum meira en á sama tímabili í fyrra.

UNICEF greindi frá því á dögunum að þúsundir barna væru föst við landamærin. Samtökin vöruðu við því að eftir því sem landamæri eru lokaðri, því meiri hætta sé á mansali. Þá verði að tryggja öruggt umhverfi og koma fylgdarlausum börnum fyrir í tímabundið fóstur eða áþekk úrræði. Nú séu börn tilneytt til að sofa undir berum himni, þau hafi ekki aðgang að baðvatni og mat eða nauðsynlegri þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×