Erlent

Efnt til þingkosninga í hluta Sýrlands í dag

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kosningaspjöld hafa verið nokkuð áberandi víða í Sýrlandi undanfarna daga.
Kosningaspjöld hafa verið nokkuð áberandi víða í Sýrlandi undanfarna daga. vísir/ap
Þingkosningar verða haldnar í Sýrlandi í dag. Reyndar aðeins í þeim hluta landsins sem stjórn Bashar al Assads forseta hefur yfirráð yfir.

Allar líkur eru á því að Assad forseti og stjórn hans vinni stórsigur.

Í lok febrúar gekk í gildi í Sýrlandi vopnahlé, sem Rússar og Bandaríkjamenn höfðu ásamt fulltrúum fleiri ríkja og alþjóðastofnana fengið bæði stjórnarherinn og stjórnarandstæðinga til að fallast á.

Vígasveitir Íslamska ríkisins og aðrir hryðjuverkahópar áttu ekki aðild að vopnahléinu, þannig að Rússar, Bandaríkjamenn og fleiri hafa haldið áfram loftárásum sínum á yfirráðasvæði þeirra. Stjórnarher Assads hefur sömuleiðis haldið áfram loftárásum á hryðjuverkamenn.

Loftárásir þessar bitna þó oft á almennum borgurum og hvorki Rússar né sýrlenski stjórnarherinn gera mikinn greinarmun á því, hvort þeir eru að gera loftárásir á hryðjuverkamenn eða aðra uppreisnarmenn, sem sumir njóta jafnvel stuðnings víða á Vesturlöndum.

Þá hafa átök verið að hefjast á ný á jörðu niðri, meðal annars í borginni Aleppo þar sem uppreisnarhópar eiga í bardögum við stjórnarherinn. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. apríl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×