Viðskipti innlent

Dagur kennir Þjóðverjum leiðtogahæfni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dagur Sigurðsson vakti mikla athygli þegar Þjóðverjar urðu meistarar á EM í byrjun árs.
Dagur Sigurðsson vakti mikla athygli þegar Þjóðverjar urðu meistarar á EM í byrjun árs. vísir/eva björk
„Það spurðist svolítið út að ég hefði verið með puttana í viðskiptum heima. Við erum að fagna fimm ára afmæli Kex sem ég átti þátt í að stofna. Svo hef ég verið með puttana í alls kyns rekstri alveg síðan ég opnaði Kofa Tómasar frænda í gamla daga,“ segir Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta. Hann segist á undanförnum árum hafa átt þátt í rekstri nokkurra félaga. Í dag sé hann með Lárusi Sigurðssyni, bróður sínum, í Bílanausti, og þá eigi hann lítið startup-fyrirtæki í Berlín sem heldur úti snjallforritinu Cuppodium.

Dagur segir að fréttir af rekstri hans hafi spurst út á svipuðum tíma og Þýskaland varð Evrópumeistari í handboltanum og áhuginn strax orðið mikill. „Það voru einhver fyrirtæki sem fóru strax af stað og vildu fá að vita hver mín nálgun væri á þennan bissness og íþróttaheiminn og hvað væri hægt að nota á hverjum stað til að komast hratt og örugglega í mark.“

Dagur hefur nú þegar meðal annars haldið fyrirlestur fyrir alla stjórnendur Deutsche Telekom (þar sem um 200 manns voru mættir til að hlýða á hann), Deutsche Credit bank og fleiri. Á mánudag heldur hann svo fyrirlestur á vegum Þýsk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Reykjavík Nordica. En hann ætlar að stoppa stutt við hér á landi. „Ég verð nú bara í tvo til þrjá daga. Maður er ennþá í starfi sem þjálfari og maður verður víst að sinna því líka,“ segir hann.

Dagur byrjaði snemma að reyna fyrir sér í viðskiptum. „Ég var í Verzlunarskólanum og alltaf notaði maður fríin í það að vinna, annaðhvort í bókabúðinni hjá afa eða íþróttaversluninni hjá frænda. Sparta á Laugaveginum var svona lítil og sæt íþróttavöruverslun. Hjá Bókaverslun Lárusar Blöndal fékk maður að vinna í kringum jól og í öðrum fríum. Þannig að ég var fljótt kominn með puttana í bissness,“ segir Dagur.

Árangur Dags með þýska handboltalandsliðið hefur vakið mikla athygli þar í landi, einkum eftir að titillinn á EM 2016 var í höfn. Meðal annars hringdi sjálf Angela Merkel, kanslari Þýskalands, í Dag til að óska honum til hamingju.

Hér má skrá sig á viðburðinn.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum 13. apríl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×