Enski boltinn

Gylfi og Joe Allen sameinaðir á ný á miðju Swansea?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Allen og Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu um boltann í leik Liverpool og Swansea á síðustu leiktíð.
Joe Allen og Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu um boltann í leik Liverpool og Swansea á síðustu leiktíð. Vísir/Getty
Swansea City hefur mikinn áhuga á að fá velska miðjumanninn Joe Allen aftur til félagsins en enn óvissa um framtíð Joe Allen hjá Liverpool.

Sky Sports segir frá því að forráðamenn Swansea ætli að bíða eftir því hvað kemur út úr samningarviðræðum Joe Allen og Liverpool.

Liverpool keypti Joe Allen á fimmtán milljónir punda árið 2012 en hann á enn eftir eitt ár af samningi sínum við Liverpool. Allen hefur ekki enn hafið viðræðum um nýjan samning.

Hinn 26 ára gamli Joe Allen hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Liverpool síðan að Jürgen Klopp tók við í október síðastliðnum og byrjaði bara átta leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Joe Allen stóð sig hinsvegar mjög vel með velska landsliðinu á EM í Frakklandi en Wales komst alla leið í undanúrslitin og Allen var valinn í lið mótsins hjá UEFA.

Samkvæmt heimildum Sky Sports er Swansea einnig að leita að sér af tveimur sóknarmönnum til þess að bæta sóknarleik liðsins.

Gylfi Þór Sigurðsson hélt eiginlega uppi sóknarleik Swansea eftir áramót þar sem hann skoraði 9 af 11 mörkum sínum á síðustu leiktíð.

Komi Joe Allen til Swansea þá verða hann og Gylfi sameinaðir á ný á miðju félagsins en Gylfi var með 7 mörk í 18 leikjum í seinni hluta 2011-12 tímabilsins eftir að hafa komið á láni frá Hoffenheim.  Allen var þá í stóru hlutverki á miðju Swansea-liðsins.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Swansea, reyndi að taka bæði Allen og Gylfa með sér yfir til Liverpool. Allen fór en Gylfi vildi frekar fara til Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×