Enski boltinn

Dag­ný kom við sögu í jafn­tefli West Ham

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dagný í baráttunni við Vivianne Miedema í leik West Ham gegn Manchester City fyrr á tímabilinu.
Dagný í baráttunni við Vivianne Miedema í leik West Ham gegn Manchester City fyrr á tímabilinu. Vísir/Getty

Dagný Brynjarsdóttir kom inn af bekknum hjá liði West Ham sem gerði jafntefli í úrvalsdeild kvenna á Englandi í dag.

Dagný sneri til baka hjá West Ham í upphafi tímabils eftir að hafa eignast sitt annað barn í febrúar. Í leiknum gegn Everton í dag byrjaði hún á bekknum en fyrir leiknn í dag voru bæði liðin án stiga á botni deildarinnar.

West Ham náði forystunni í leiknum í dag með marki frá Anouk Denton en sjálfsmark Camila Saez í síðari hálfleiknum tryggði Everton eitt stig úr leiknum.

Lokatölur 1-1 en Dagný Brynjarsdóttir kom inn sem varamaður strax í kjölfar jöfnunarmarks Everton á 72. mínútu.

Þá vann Manchester City 2-1 útisigur á Liverpool í stórleik umferðarinnar. Það stefndi lengi vel í 1-1 jafntefli í þeim leik en í uppbótartíma skoraði Khadija Shaw sigurmarkið fyrir Manchester City sem þar með tryggði sér sinn þriðja sigur í röð.

Manchester City er á toppi deildarinnar með 10 stig eftir fjórar umferðir en Chelsea og Manchester United eru með 9 stig ásamt Brighton í 2. - 4. sæti en Chelsea og United eiga leik til góða.

Úrslit í öðrum leikjum:

Manchester United - Tottenham 3:0

Aston Villa - Leicester 0-0

Crystal Palace - Brighton 0-1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×