Menning

Ögraðu öllu og hugsaðu út fyrir kassann

Magnús Guðmundsson skrifar
Frans Jacobi, prófessor í gjörningalist, er á meðal fyrirlesara í LHÍ í dag og um helgina.
Frans Jacobi, prófessor í gjörningalist, er á meðal fyrirlesara í LHÍ í dag og um helgina. Visir/Stefán
Frans Jacobi, prófessor við gjörningalist hjá Listaháskólanum í Bergen, er á meðal fyrirlesara á ráðstefnu myndlistardeildar LHÍ Athöfn – snúin afstaða til hlutarins, sem hefst í dag. Jacobi hefur komið víða við og hefur meðal annars staðið fyrir framúrstefnulegum gjörningi sem fram fór í Bergen á margra vikna tímabili. Markmiðið með gjörningnum var að stuðla að heimsfriði. Jacobi segir að á ráðstefnunni muni fimm listamenn verða með kynningar á sínum verkum. Auk hans eru það Bryndís H. Snæbjörnsdóttir, Johan Grimonprez, Ragnar Kjartansson og Ulrika Ferm.

„Allt verður þetta um athöfnina sem er fólgin í sköpun. En þetta hefur verið að þróast frá því á sjöunda áratugnum. Í dag er þetta einn af mikilvægustu eiginleikum nútímalistar. Hér áður fyrr þá hugsuðum við okkur t.d. málverk og í stað þess að horfa á málverkið þá horfum við frekar á hvernig málarinn hreyfir sig. Athöfnina að mála. En nú er þetta meira eins og ákveðin athöfn eða gjörningur eins og það er kallað. Þar sem í stað þess að framleiða ákveðinn listrænan grip þá felst listin í athöfninni sjálfri.“

Jacobi segir að á undanförnum árum hafi vissulega orðið nokkuð hröð þróun innan þessarar listgreinar og þá m.a. fyrir tilstilli internetsins og samfélagsmiðla. „Hér áður snerist þetta alfarið um athöfnina og áhorfendur sem voru á staðnum en núna hefur það bæst við að flest verk fara líka á netið og það má því segja að listamennirnir séu að fást við tvöfaldan veruleika hverju sinni.“

Nemendur við Listaháskóla Íslands láta til sín taka við gjörningalistina við fyrirlestur hjá Frans Jacobi. Visir/Stefán
Eitt af einkennum gjörningalistarinnar hefur oft verið sterkur pólitískur veruleiki og Jacobi segir að þessi þróun hafi verið nokkuð stöðug síðustu áratugina og að hans eigin list sé einnig að nokkru leyti innan þessa veruleika. „Já, ég hef fengist við að skapa pólitísk verk. Það snerist einfaldlega um að ákveðin þróun innan samfélagsins kveikti í mér, gerði mig reiðan, og það leiddi til ákveðinna verka. Við getum tekið sem dæmi þessi nýju innflytjendalög í Danmörku sem óneitanlega kveikja í manni með að tjá óánægjuna. Þessi hægri öfgamennska sem er snúin aftur í danskt stjórnmálalíf er mikið áhyggjuefni.

Á síðustu tíu til tuttugu árum hef ég orðið var við aukningu á því að listamenn tjái pólitík í sinni list. Að þeir skoði samfélagið, gagnrýni það og reyni að bæta það með sinni list og ég er viss um að það mun verða framhald á því.“

Jacobi segir að það sé þó ekki alltaf gefið að listin og listamennirnir séu í einhvers konar stöðugri stjórnarandstöðu eða hafni alfarið öllu yfirvaldi. „Málið er að þetta er ekki svart hvítur veruleiki og það er ekki gefið að listamaðurinn sé alltaf vinstrimaður eða anarkisti. Ef við skoðum til að mynda skopmyndamálin í Danmörku í vikunni og berum þau saman við skopmyndamálið fyrir tíu árum þá kemur í ljós að þetta er ekki svona einfalt. En tilgangur listarinnar er þó alltaf að vera ögrandi, að minnsta kosti að ögra hugsunum okkar og skoðunum, og listamaður reynir alltaf að nálgast hlutina á nýjan og ferskan hátt. Hugsa út fyrir kassann og fá aðra til þess að gera það líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×