Innlent

Rannsókn lögreglu á eldsupptökum á Seljavegi hefst eftir hádegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eldurinn kviknaði í risíbúð í fjölbýlishúsi við Seljaveg í nótt.
Eldurinn kviknaði í risíbúð í fjölbýlishúsi við Seljaveg í nótt. vísir/gva
Tæknideild lögreglu mun ekki hefja rannsókn á eldsupptökum í risíbúð við Seljaveg sem gjöreyðilagðist í eldsvoða í nótt fyrr en eftir hádegi. Grunur leikur á að kviknað hafi í út frá kertaskreytingu en eldsupptök fást ekki staðfest fyrr en lögregla hefur lokið rannsókn á vettvangi. Ekki er hægt að fara inn í íbúðina til að hefja rannsókn fyrr þar sem kólna þarf í glæðum fyrst.

Móðir og dóttir sluppu naumlega út úr brennandi íbúðinni um klukkan hálf fjögur í nótt. Eldurinn virðist hafa magnast hratt og voru rúður farnar að springa þegar slökkviliðið kom á vettvang, en fólk úr öðrum íbúðum hússins hafði þá náð að forða sér út.

Mæðgurnar voru fluttar á slysadeild en þær munu ekki hafa orðið fyrir reykeitrun. Risið var einangrað með torfi og var því mikill eldsmatur í einangruninni. Það tók því talsverðan tíma og þurfti víða að rífa frá glæðum en slökkvistarfi lauk um klukkan korter yfir fimm. Íbúar í öðrum íbúðum fengu þá að snúa til síns heima.

Eins og sést á myndbandinu hér að neðan, sem birt var á vef Stundarinnar, sést vel hversu mikill eldur var í íbúðinni en eldtungurnar standa upp úr þaki hússins.


Tengdar fréttir

Sluppu naumlega úr brennandi íbúð

Mæðgur sluppu naumlega út úr brennandi risíbúð í sambýlishúsi við Seljaveg í Reykjavík um klukkan hálf fjögur í nótt. Eldurinn virðist hafa magnast hratt og voru rúður farnar að springa út þegar slökkviliðið kom á vettvang, en þá hafði fólk úr öðrum íbúðum hússins forðað sér út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×