Erlent

Eldarnir magnast enn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Skógareldar geisa enn í Kanada
Skógareldar geisa enn í Kanada
Eldarnir í Alberta í Kanada hafa haldið áfram að magnast dag frá degi. Síðan á föstudag hefur eldsvæðið þrefaldast að flatarmáli og búist er við því að ástandið eigi enn eftir að versna.

Stjórnvöld í Alberta telja allar líkur á að glíman við eldana geti staðið yfir mánuðum saman, enda ekkert lát á þurrkatíðinni.

Miklir hitar eru á þessum slóðum og verulegt hvassviðri gerir ástandið enn verra. Einhver úrkoma var í gær en dugði engan veginn til.

Úrhellisrigningu þurfi.



Eldarnir þöktu í gær nærri 3.000 ferkílómetra svæði en náðu á föstudaginn yfir þúsund ferkílómetra.

Þykkur reykur hvílir yfir svæðinu og fólk er hvatt til að halda sig inni eða koma sér í burtu. Sérstaklega er ástandið erfitt fyrir fólk með öndunarfærasjúkdóma, sem varað er við því að fara út úr húsi.

Eldarnir hafa eyðilagt meira en 1.600 byggingar í Fort McMurray og á annan tug bygginga í Anzac. 80 þúsund manns hafa forðað sér frá borginni. Nærri helmingurinn hefur leitað ásjár hjá Rauða krossinum og um fimm þúsund hafa fengið inni í samkomuhúsum meðan stjórnvöld leita að bráðabirgðahúsnæði.

Rachel Notely, forsætisráðherra Albertafylkis, sagði í gær að öllum íbúum hafi verið forðað úr borginni. Lögreglumenn hafa leitað í borginni að fólki, sem kynni að leynast þar enn og tókst að bjarga nokkrum burt á lífi. Ekki er vitað til þess að eldarnir hafi kostað mannslíf.

Hundruð slökkviliðsmanna hafa barist við eldana og við slökkvistarfið hefur verið notast við 88 slökkvibifreiðar, fimmtán þyrlur og tugi flugvéla, sem notaðar hafa verið til að varpa vatni niður á eldana.

Tjónið hefur verið gróflega metið á nærri 10 milljarða kanadadala, eða um 950 milljarða króna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 9. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×