Lífið

Það þarf að segja sannleikann umbúðalaust svo að fólk vakni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Einar spyr hvort grunnskólar landsins þurfi ekki einfaldlega að skylda feit börn til að hreyfa sig oftar.
Einar spyr hvort grunnskólar landsins þurfi ekki einfaldlega að skylda feit börn til að hreyfa sig oftar. Vísir/Getty
Fá skrif hafa vakið jafnmikla athygli að undanförnu og pistill Einars Ísfjörð þar sem hann segir nám á Íslandi gamaldags, íslensk börn of feit og foreldra þeirra vera aumingja.

Pistilinn birti hann á vefsíðu sinni fyrr í ágúst og fór hann fljótt á flug. Alls hefur skrifunum verið deilt rúmlega 6000 sinnum og sitt sýnist hverjum um skrifin.

Þar segir Einar meðal annars að íslenskir grunnskólar séu „fullur af allskonar drullu sem engin þarf né vill kunna“ og að sama skapi skorti þá„helling;“ til að mynda ætti kennsla í skyndihjálp, næringafræði og fjármálalæsi að vera skylda meðan kristinfræði ætti að hætta að kenna með öllu.

Þá ætti að leggja aukna áherslu á íþróttir í grunnskólum landsins af þeirri einföldu ástæðu að „öll börn í dag eru offitusjúklingar.“

Einar spyr: „Af hverju eru feitu krakkarnir ekki látnir fara oftar í íþróttir heldur en þau sem eru í kjörþyngd?

Sem dæmi, ef ég væri alkahólisti þá þarf ég að fara í meðferð. Það væri töluvert overkill að skylda allan vinahópinn minn í meðferð útaf því að ég einn væri með drykkjuvandamál.“

Ábyrgðin hvíli þó á foreldrunum, sem eru einfaldlega heimskir að mati Einars.

„Flest feit börn, halda að vandamálið sé bara þeirra, að það sé þeim að kenna að þau séu feit. En oftast er það foreldrunum að kenna því þau eru heimsk og axla ekki ábyrgð. Þegar ég segi heimsk þá meina ég það í orðsins fyllstu og á við að þau eru fáfróð og einmitt taka ekki ábyrgð á barninu sínu og velferð þess.“

Pistil Einars má sjá í heild sinni hér: Námið er gamaldags, börnin eru feit og foreldrar eru aumingjar.

Flíspeysumömmur reyta hár sitt

Sem fyrr segir vöktu skrifin mikil viðbrögð og hefur gífyrðum verið ausið yfir Einar, hann til að mynda sagður fordómafullur, viðhalda hatursorðæðu í garð barna og vera þjakaðan af fitufordómum. Einar segist hafa gaman af viðbrögðum fólks sem er reitt yfir þessu en að ásakanir um fordóma og hatursorðræðu séu fjarri sannleikanum. 

„Margir eru ekki sáttir við þetta en ég hef persónulega aðeins fengið jákvæð viðbrögð upp á mitt borð,“ segir Einar Ísfjörð í útvarpsþættinum Brennslunni í morgun. Hann hafi til að mynda fengið fjöldamörg jákvæð skilaboð frá kennurum og öðrum í menntakerfinu. Spjallið við hann má heyra í spilarnum hér að ofan.

„Fyrir hverja 10-20 sem eru ánægðir með þetta þá eru alltaf 1-2 flíspeysumömmur sem eru að hárreyta sjálfa sig af reiði.“

Einar segist því standa við skrifin, það hafi hann alltaf gert og hann ætli sér ekki að hætta því núna. Vilji maður að fólk vakni til umhugsunar þýðir ekkert að skafa af hlutunum.

„Fyrir mér er þetta ekkert annað en sannleikurinn og sannleikurinn er greinilega ekkert alltaf sagna bestur. Fólk segist vilja sannleikann en þegar maður er heiðarlegur við það þá fer það oft í fýlu,“ segir Einar.

„Ef ég hefði orðað þetta eitthvað öðruvísi, eins og: „Mörg börn hafa bætt á sig blablabla,“ eða „ég veit um nokkur feit börn“ þá væri fólk ekkert að pæla í þessu. Það þarf oft að fara hart í hlutina til að fólk vakni og taki eftir þessu. Ef einhverjir særast við það þá verða þeir bara að eiga það við sjálfan sig,“ segir Einar.

„Þeir sem hneykslast leita yfirleitt ekki lausna.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×