„Málið er með pabba, svo maður segir satt og rétt frá, að þá var frami hans ekkert gríðarlegur í lifanda lífi. Það voru kanónur í abstraktheiminum á þessum árum en menn vissu vel af honum. Það var reyndar mikil vinátta á milli pabba og Svavars Guðnasonar, sem ég mundi segja að hafi verið hans mentor þó að hann hafi svo farið í aðrar áttir. En svo eru myndlistarmenn af yngri kynslóðinni í dag sem vita vel af verkum föður míns og hafa verið að kinka til þeirra kolli. Þar má nefna Gabríelu Friðriksdóttur og Davíð Örn Halldórsson.“

Með sýningunni á verkum Einars er í raun fólgið ákveðið tækifæri fyrir listamenn af yngri kynslóðinni til þess að koma og sjá breiðara svið af verkum þessarar kynslóðar en hefur verið í aðgengilegt til þessa. Þorlákur tekur undir þetta og segir að tímasetningin sé líka góð fyrir þessa sýningu. „Mér finnst þessi verk tala nokkuð skýrt inn í margt af því sem er í gangi í dag og þá hjá mun yngra fólki. Fólki sem er jafnvel af kynslóðinni undir þrítugu og það er spennandi að fylgjast með slíkri þróun og sambandi á milli listamanna af mismunandi kynslóðum.“
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. september.