Skoðun

Þögn er afstaða

Finnur Árnason skrifar
Búvörulögin svokölluðu voru samþykkt á Alþingi í vikunni. Aðeins 19 þingmenn samþykktu lögin, eða um 30 prósent þingmanna. Aðrir voru fjarverandi eða sátu hjá. Ég hef áður haldið því fram að umfjöllun og meðferð málsins sé eitt stærsta hagsmunamál íslenskra heimila. Það landbúnaðarkerfi sem við búum við kostar skattgreiðendur og neytendur mikið, en bændur bera lítið úr býtum. Fram hefur komið að einungis tvær af hverjum þremur krónum skila sér til bænda.

Fulltrúar okkar á þingi höfðu einstakt tækifæri til þess að gera kerfisbreytingu bændum og neytendum til heilla. Ég tel áherslur samningsins hvorki hvetja til framsækni né bæta hag bænda og neytenda til framtíðar. Alþingi nýtti ekki tækifærið heldur kaus að festa bændur í úreltu landbúnaðarkerfi.

Björt framtíð kom fram með breytingartillögu við lögin um að styrkir féllu niður til þeirra sem stunduðu dýraníð. Tillagan var felld í þinginu. Ég held að flestir bændur og almenningur séu mér sammála um að þessa breytingar­tillögu átti ekki að fella í þinginu.

Formaður bændasamtakanna sendi út fréttatilkynningu og taldi skoðun mína bera vott um fjandsamlega afstöðu til bænda.

Hann hefur reyndar ítrekað drepið málefnalegri umræðu á dreif með slíkum aðferðum. Gagnrýni mín snýr að stjórnsýslu, vinnubrögðum ráðherra og þinglegri meðferð málsins. Það var ekki ætlun mín að veitast að bændum. Mér þykir hins vegar breytingartillaga Bjartrar framtíðar skynsamleg. Ég veit að bændur eru sjálfir hlynntir aukinni vernd og velferð dýra. Hag bænda sjálfra verður betur borgið með löngu tímabærum umbótum á landbúnaðarkerfinu. Mér þykir leitt ef orð mín gáfu til kynna fjandskap út í bændur. Þvert á móti vil ég veg þeirra sem mestan. Öflug íslensk framleiðsla í heilbrigðri samkeppni mun ávallt njóta sérstöðu. Íslenskur landbúnaður á skilið að blómstra og að losna undan álögum stjórnmálamanna.

Atkvæðagreiðslan í þinginu var einstök. Flótti þingmanna frá því að taka afstöðu sýnir svart á hvítu hver afstaða þeirra er til málsins. Aðeins 19 þingmenn þurfti til þess að samþykkja milljarða skattlagningu á neytendur. Þeir sem ekki greiddu atkvæði vita að þeir eru kjörnir til ábyrgðar og að þögn er afstaða.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×