Að minnsta kosti tíu Repúblikanar hafa sagt að þeir muni ekki kjósa Trump vegna ummælanna og þá hefur Mike Pence, varaforsetaefni Trump, sagt ummælin ófyrirgefanleg. Fjölmargir hafa farið fram á að Pence taki við keflinu.
John McCain fyrrum forsetaefni flokksins hefur dregið stuðning sinn til baka sem og Condoleezza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
„Nú er nóg komið. Donald Trump á ekki að verða forseti. Hann á að draga framboð sitt til baka,“ sagði Rice á Facebook-síðu sinni.
Þrátt fyrir að Trump hafi mætt mikilli mótstöðu meðal flokksmanna sinna komu hundruð stuðningsmanna hans saman fyrir utan Trump Towers í gær og hvöttu hann áfram. Mikil ringulreið skapaðist eftir að Trump kom út og þakkaði þeim fyrir, líkt og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.
Trump mætir Hillary Clinton í seinni forsetakappræðum frambjóðandanna í St. Louis í Missouri í kvöld.