Fótbolti

Beckenbauer sætir rannsókn vegna spillingar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Franz Beckenbauer, einn þekktasti knattspyrnumaður Þýskalands frá upphafi, sætir nú rannsókn svissneskra yfirvalda vegna gruns um spillingar. BBC greinir frá.

Fyrr á þessu ári hóf Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, rannsókn á útboði á HM 2006 en svo fór að Þýskaland var valið af framkvæmdastjórn FIFA til að halda keppnina.

Sex manns voru til rannsóknar hjá FIFA og nú hafa svissnesk yfirvöld hafið sína eigin rannsókn.

Beckenbauer fór fyrir nefnd þýska knattspyrnusambandsins sem sóttist eftir keppninni og hefur alfarið neitað því að atkvæði hafi verið keypt. Hann viðurkennir þó að ákveðin „mistök“ hafi átt sér stað.

Sjá einnig: Beckenbauer sektaður af FIFA og fær aðvörun

Atkvæðagreiðslan um keppnina fór fram árið 2000 og hafði Þýskaland betur gegn Suður-Afríku í atkvæðagreiðslunni, 12-11.

Þýska tímaritið Spiegel fullyrti á fimmtudag að rannsókn yfirvalda beinist að greiðslum sem áttu sér stað á árunum 2002 til 2005 ognámu samtals rúmlega tíu milljónum Bandaríkjadala.

FIFA er með höfuðstöðvar sínar í Sviss og hafa bæði yfirvöld í Sviss og Bandaríkjunum sett af stað miklar rannsóknir á spillingarmálum innan sambandsins. Vegna þessa hafa meðal annars Sepp Blatter og Michel Platini hrökklast frá embættum sínum í FIFA og Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA.

Beckenbauer var fyrirliði Vestur-Þýskalands sem varð heimsmeistari árið 1974 og svo þjálfari sama liðs er það vann heimsmeistaratitilinn sextán árum síðar.


Tengdar fréttir

Beckenbauer viðurkennir mistök

Franz Beckenbauer, sem bæði varð heimsmeistari með þýska landsliðinu sem fyrirliði og þjálfari, hefur viðurkennt mistök nefndar sem hann fór fyrir þegar Þjóðverjar sóttust efir því að fá að halda heimsmeistaramótið í fótbolta 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×