Upp­gjörið: Valur - Haukar 28-22 | Ekkert hik á Vals­konum

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
436319009_10159514760827447_79128376532572648_n
vísir/anton

Valskonur héldu áfram sigurgöngu sinni í Olís-deildinni þegar liðið lagði lið Hauka í N1 höllinni í 5. umferð deildarinnar. Lokatölur 28-22 þar sem var á brattan að sækja fyrir gestina allan tímann.

Valskonur voru skrefi á undan Haukum allan fyrri hálfleikinn. Lovísa Thompson, leikmaður Vals, var fremst í flokki í sínu liði en hún skoraði þrjú fyrstu mörk síns liðs.

Munurinn á liðunum var á bilinu eitt til tvö mörk lengst af í fyrri hálfleik. Hins vegar eftir um korters leik fóru gestirnir afar illa með mörg góð færi og Valskonur bættu í forystu sína. Staðan 10-6 eftir tuttugu mínútur og tóku Haukar þá leikhlé. Eftir leikhléið komu Haukar sér aftur í seilingarfjarlægð frá heimakonum. Hálfleikstölur 12-10 fyrir Val.

Heimakonur hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og í raun gengu frá leiknum á þessum kafla. Haukar tóku leikhlé eftir aðeins um tíu mínútna leik í síðari hálfleik í stöðunni 18-13. Skilaði það leikhlé litlu og héldu Valskonur, með Lovísu Thompson í broddi fylkingar, áfram að bæta í sína forystu.

Lokakafli leiksins var afar óspennandi þar sem ljóst var hvar sigurinn myndi enda. Lokatölur, eins og fyrr segir, 28-22.

Atvik leiksins

Haukar tóku aragrúa af ólöglegum miðjum eftir að liði hafði fengið á sig mark í leiknum. Hafði það þó nokkur áhrif á leikinn á kafla þar sem það kom í veg fyrir það að liðið gæti tekið hraða miðju og keyrt á lið Vals sem var að hlaupa til baka í vörn. Ólíklegt er að þetta hafi þó ráðið úrslitum, en þetta hafði sennilega áhrif á það hvernig lið Hauka vildi spila.

Stjörnur og skúrkar

Lovísa Thompson var yfirburða leikmaður á vellinum í dag. Sjö mörk, fjórar stoðsendingar og þrjú fiskuð víti hjá Lovísu, en Haukar réðu ekkert við hana í dag.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir, hornamaður Vals, var síðan ótrúleg á vítalínunni, en hún skoraði úr öllum sjö vítaskotum sínum í dag.

Vörn Vals var einnig gríðarlega sterk og varði liði ófáa bolta í hávörn liðsins. Á bak við þessa þéttu vörn stóð svo Hafdís Renötudóttir sem átti góðan leik að vanda og varði meðal annars tvö vítaskot.

Sama sinnis var sóknarleikur Hauka á köflum rislítill og máttu skyttur Hauka sér lítils gegn vörn Vals.

Dómarar

Ramunas Mikalonis og Magnús Kári Jónsson dæmdu þennan leik þokkalega. Það voru þó undarlegir dómar hér og þar og skilaði það sér í gulum spjöldum á þjálfara beggja liða sem furðuðu sér á sumum dómum í leiknum.

Stemning og umgjörð

Ágætlega mætt í N1 höllina í dag á þennan stórleik. Umgjörð Vals var svo að sjálfsögðu til fyrirmyndar líkt og hún er endranær.

Díana Guðjónsdóttir: Þú vinnur ekki Val svona

Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka, var ekkert að skafa af hlutunum eftir tap síns liðs í dag.

„Svekkt. Við vorum engan veginn tilbúinn í þá baráttu sem þarf til til þess að vinna Val,“ sagði Díana.

„Við byrjum illa, lendum undir 10-6, og jú tökum okkur aðeins á, en allt það sem við vorum búin að ræða það gekk ekki eftir, til dæmis farið út úr varnarskipulagi. Þú vinnur ekki Val svona, þetta verður þá bara einstefna hjá þeim.“

Díana Guðjónsdóttir er þjálfari HaukaVísir/Diego

Díana skaut nokkuð föstum skotum að sínu liði aðspurð af hverju leikmenn hafi ekki fylgt því leikplani sem var sett upp.

„Ég veit ekki afhverju, leikmenn eru kannski bara hræddir og spurning hvort þeir hafi trú á verkefninu.“

Haukar eru taldir eiga að geta veitt Val hvað mesta samkeppni á þessu tímabili, en þessi lið léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor. Haukar styrktu einnig leikmannahóp sinn nokkuð fyrir þetta tímabil. Aðspurð af hverju þessi mikli munur væri á liðunum í dag, hafði Díana þetta að segja.

„Ég meina ef þú horfir á leikmannahópinn og landsliðsval þá eiga þær að vera með miklu betra lið en við. Við eigum einn landsliðsmann, þær eru með ansi marga og fyrrverandi landsliðsmenn. Þær eiga að vera betri.“

Díana er ekkert kampakát yfir því hversu slitróttar næstu vikur verða í Olís-deild kvenna og segir það krefjandi verkefni fyrir sitt lið.

„Við eigum erfiðan leik við ÍR á miðvikudag og svo kemur landsliðspása númer tvö og svo kemur aftur smá verkefni og aftur landsliðspása í 5-6 vikur. Það er rosa erfitt að gíra sig upp þegar þetta spilast svona, en það er enginn afsökun fyrir leiknum í dag eða neitt svoleiðis. Við erum að læra og eigum ansi langt í land greinilega,“ sagði Díana að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira