Erlent

Byssumaðurinn í Kristjaníu særðist í átökum við lögreglu

Vísir/AFP
Til skotbardaga kom í morgun á milli lögreglunnar í Kaupmannahöfn og manns sem grunaður er um að hafa sært tvo lögreglumenn og einn almennan borgara í fríríkinu Kristjaníu í gærkvöldi. Lögreglan hafði gert áhlaup inn í hverfið í gærkvöldi til að uppræta þar hasssölu þegar maðurinn, sem sagður er á þrítugsaldri, tók upp byssu og hóf skothríð.

Hann er sagður þekktur fíkniefnasali í hverfinu, sem um áratugaskeið hefur verið miðstöð eiturlyfjasölu í Danmörku. Annar lögreglumannanna er alvarlega særður en hann fékk skot í höfuðið. Hinn lögreglumaðurinn, sem og almenni borgarinn, særðust báðir á fæti. Mannsins var leitað um alla borgina í nótt og í morgun gerði sérsveit lögreglunnar áhlaup á hús í Kastrup þar sem hann hafði leitað skjóls. Til skotbardaga kom á milli mannsins og lögreglu og særðist hinn grunaði í þeim átökum. Ástand hans er ekki ljóst. Rannsókn málsins er nú komin í hendur innra eftirlits lögreglu.

Lögreglustjórinn í Kaupmannahöfn segist vonast til að skotárásin vekji íbúa Kristjaníu til umhugsunar. Hann segir ljóst að eiturlyfjasalar séu orðnir of fyrirferðarmiklir í fríríkinu og skoraði hann á íbúa hverfisins að skera upp herör gegn eiturlyfjasölunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×