Erlent

Abadi segir Íraka þurfa þrjá mánuði til viðbótar til að eyða ISIS

Atli Ísleifsson skrifar
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks.
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks. Vísir/AFP
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Íraks, segir að það komi til með að taka þrjá mánuði til viðbótar að eyða hryðjuverkasamtökunum ISIS.

Abadi greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi í dag, en öryggissveitir í landinu vinna nú að því að ná Mosúl, næststærstu borg landsins, úr höndum ISIS.

Forsætisráðherrann hafði áður sagt að sveitunum myndi takast að ná borginni aftur á sitt vald fyrir árslok.

Í frétt Reuters kemur fram að herforingjar segi hins vegar þörf á að flýta sér hægt þar sem nauðsynlegt sé að tryggja öryggi óbreyttra borgara sem hafa flestir haldið kyrru fyrir á heimilum sínum í stað þess að flýja borgina líkt og búist var við

„Aðstæður benda til þess að Írak þurfi þrjá mánuði til að eyða Daesh (ISIS),“ sagði Abadi í ávarpi sínu.

Tveir mánuðir eru nú liðnir frá því að írakskar öryggissveitir hófu sókn sína inn í Mosúl. Þær ráða nú yfir um fjórðungi borgarinnar og hafa haldið kyrru fyrir síðustu daga.

Búist er við að sókninni verði fram haldið eftir fáeina daga þar sem bandarískar hersveitir, sem aðstoða írakska herinn, verði færðar nær víglínunni.

ISIS-liðar hafa ráðið yfir Mosúl frá í júní 2014.


Tengdar fréttir

Reikna með að ISIS snúi sér að Evrópu

Europol hefur varað við því að hryðjuverkamenn á vegum ISIS muni í auknum mæli snúa sér að árásum í Evrópu eftir því sem þrengir að landsvæði þeirra í Sýrlandi og Írak




Fleiri fréttir

Sjá meira


×