Erlent

Seinkaði um tvo tíma eftir pissustopp á Írlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vélin var á vegum dótturfélags British Airways.
Vélin var á vegum dótturfélags British Airways.
Flugvél á leið frá New York til Parísar þurfti að lenda á Írlandi á dögunum til að hleypa farþegum vélarinnar á salernið.

Vélin var á vegum flugfélagsins OpenSkies, dótturfélags British Airwaves, og ákveðið var að lenda vélinni í kjölfar fjölda kvartana frá farþegum vélarinnar sem voru 172 talsins. 

Áhöfn vélarinnar, sem var af gerðinni Boeing 767, staðfesti í samtali við breska fjölmiðla að kvartanirnar mætti rekja til bilunar í klósettum vélarinnar. Þau voru með öllu óvirk síðustu 90 mínútur ferðarinnar og var því brugðið á þá ráð að lenda á Shannonflugvelli í vesturhluta Írlands - áður en einhverjum yrði brátt í brók.

Pissustoppið varð til þess að vélinni seinkaði um tvær klukkustundir og nýttu flugvirkjar tímann til að laga klósettin. British Airways hefur ekki tjáð sig um málið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×