Innlent

Ingunn Einarsdóttir er látin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingunn Einarsdóttir á hlaupabrautinni. Myndin er af vef Frjálsíþróttasambands Íslands.
Ingunn Einarsdóttir á hlaupabrautinni. Myndin er af vef Frjálsíþróttasambands Íslands.
Ingunn Einarsdóttir ein fyrsta afrekskona Íslendinga í frjálsíþróttum er látin eftir erfið veikindi aðeins 61 árs að aldri. Hún var búsett í Hollandi þar sem hún rak nuddstofu um árabil. Frá þessu er greint á heimasíðu Frjálsíþróttasambands Íslands.

Ingunn var á tímabili ósigrandi í spretthlaupum hér á landi og setti fjölda landsmeta í 100 m, 200 m og 400 m hlaupum. Hún átti einnig met í 100 m grindahlaupi og fimmtarþraut og setti eitt árið m.a. 10 landsmet. Hún keppti á Evrópumeistaramótinu í Helsinki árið 1971, önnur íslenskra kvenna. Íslandsmet hennar í 100 m hlaupi, 11,8 sek. frá 1977, stóð í 11 ár og er enn 12. besti árangur á landinu í þeirri grein. Ingunn hóf íþróttaferil sinn hjá KA á Akureyri þar sem hún er fædd og uppalin, en fluttist síðar til Reykjavíkur og hóf keppni með ÍR árið 1972.

Ingunn var mikill brautryðjandi kvenna í íþróttum og fyrsta afrekskona Akureyringa í frjálsíþróttum. Hún var einnig góð fyrirmynd og hvatti aðra til dáða. Ennfremur var hún drjúg í landskeppnum fyrir hönd Íslands. Meiðsli komu í veg fyrir þátttöku hennar á Ólympíuleikunum 1976, en árangur hennar á næstu árum sýndi að hún átti fullt erindi á alþjóðleg stórmót. Ingunn var afburða duglegur íþróttamaður og var í fyrsta sigurliði ÍR í Bikarkeppni FRÍ árið 1972, sem var upphafið af 16 ára sigurgöngu liðsins. Bakmeiðsli bundu ótímabæran enda á íþróttaferil hennar.

Frjálsíþróttahreyfingin á Íslandi þakkar Ingunni fyrir samfylgdina og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Að neðan má sjá fjölmargar myndir af Ingunni og afrekum hennar í frjálsíþróttum í gegnum árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×