Fréttamaður bandarísku fréttastöðvarinnar Fox News baðst í gær afsökunar á frétt sinni um forsetaframbjóðandann Hillary Clinton, en þar sagði að Clinton yrði að öllum líkindum ákærð af alríkislögreglunni í tengslum við rannsókn á góðgerðarsjóði hennar og manns hennar, Bill Clinton.
Fréttamaðurinn Bret Baier, sem flutti fréttina á miðvikudag, segir það hafa verið mistök að tala um mögulega ákæru, sérstaklega nú þegar kosningabarátta Clintons og Donald Trump stendur sem hæst.
Sjá einnig: Mikil harka í baráttunni um Hvíta húsið
„Enginn veit hvort það verður af ákæru eður ei, sama hversu örugg sönnunargögn rannsakendur telja sig hafa í höndunum,“ sagði Baier í gær.
Aðrir miðlar greindu frá því í vikunni að alríkislögreglan hefði síðastliðinn vetur grennslast fyrir um starfssemi góðgerðarsjóðsins í kjölfar ásakana um að bakhjarlar sjóðsins hefðu notið góðvildar hjá utanríkisráðuneytinu í tíð Clinton sem ráðherra. Ekki væri þó vitað hvort málið væri enn til rannsóknar.
Fox fullyrti einnig í frétt sinni að alríkislögreglan telji „99 prósent líkur“ á því að leyniþjónustur allt að fimm ríkja hafi brotist inni í tölvupóstþjón Clinton í ráðherratíð hennar.

