Enski boltinn

Fimm stjörnu frammistaða Chelsea á heimavelli | Sjáðu mörkin

Chelsea slátraði Everton í lokaleik dagsins í enska boltanum 5-0 en með sigrinum sem var síst of stór komst Chelsea í toppsætið í bili en Arsenal og Liverpool geta komist upp fyrir Chelsea á morgun.

Eftir tap í nágrannaslagnum gegn Arsenal hafa lærisveinar Antonio Conte í Chelsea verið á miklu flugi. Fjórir sigurleikir í röð og markatalan 11-0 í fjórum leikjum gerði það að verkum að Chelsea er komið í toppbaráttuna á ný.

Belgíski kantmaðurinn Eden Hazard hefur farið á kostum í þessum leikjum og kom hann Chelsea yfir með skoti á 19. mínútu en aðeins mínútu síðar var Chelsea búið að bæta við marki.

Var þar að verki spænski bakvörðurinn Marcus Alonso eftir sendingu frá landa sínum, Pedro, hans fyrsta mark fyrir félagið.

Diego Costa, markahæsti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni, bætti við marki undir lok fyrri hálfleiks og gerði út um leikinn fyrir Chelsea eftir hornspyrnu og leiddu heimamenn 3-0 í hálfleik.

Hazard bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Chelsea á 56. mínútu en tíu mínútum síðar var komið að Pedro að skora eftir góða skyndisókn Chelsea. Varði Martin Stekelenburg í marki Everton boltann beint fyrir fætur Pedro sem skoraði í autt netið af stuttu færi.

Chelsea fékk færi til að bæta við mörkum en náðu ekki að nýta þau og lauk leiknum því með 5-0 sigri Chelsea á heimavelli sem skaust, líkt og kom fram hér fyrir ofan, upp í efsta sætið með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×