Fótbolti

Jón Guðni og félagar töpuðu dýrmætum stigum á heimavelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Guðni og félagar gerðu einn eitt jafnteflið í dag.
Jón Guðni og félagar gerðu einn eitt jafnteflið í dag. Vísir
Jón Guðni Fjóluson og félagar í Norrköping misstu af mikilvægum stigum á heimavelli í toppbaráttunni í sænsku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið náði aðeins jafntefli gegn Östersunds.

Gestirnir úr Östersunds komust yfir á 6. mínútu en Norrköping svaraði með tveimur mörkum og leiddi í hálfleik.

Saman Ghoddos náði að jafna metin fyrir Östersunds á upphafsmínútum seinni hálfleiks en Norrköping náði forskotinu aftur um miðbik seinni hálfleiks.

Ghoddos náði þó að bjarga stigi fyrir gestina á 84. mínútu en þetta var fjórða jafntefli Norrköping í síðustu fimm leikjum og getur Malmö náð fimm stiga forskoti á morgun á toppi deildarinnar.

Kristinn Steindórsson kom ekkert við sögu í 0-2 tapi Sundsvall á heimavelli gegn Helsingborg en Sundsvall situr um miðja deild með 19. stig eftir 14 leiki.

Þá fengu Björn Daníel Sverrisson og félagar í Viking skell í norska boltanum fyrr í dag gegn Haugesund á útivelli.

Viking komst yfir á 12. mínútu en heimamenn voru fljótir að jafna og var allt í járnum í hálfleik. Þrjú mörk á rúmlega korteri hjá Haugesund gerðu síðan út um leikinn í seinni hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×