Enski boltinn

Nýliðar Middlesbrough styrkja sig fyrir komandi átök í ensku úrvalsdeildinni

Barragan reynir hér að stöðva Neymar í leik gegn Barcelona.
Barragan reynir hér að stöðva Neymar í leik gegn Barcelona. Vísir/Getty
Forráðamenn Middlesbrough vinna nú hörðum höndum að því að styrkja liðið fyrir tímabilið í ensku úrvalsdeildinni eftir sjö ár í Championship-deildinni en liðið gekk frá kaupum á spænska bakverðinum Antonio Barragan í gær.

Barragan er annar Spánverjinn sem gengur til liðs við Middlesbrough en áður hafði Victor Valdes samið við félagið.

Barragan sem er 29 árs gamall og kemur frá Valencia var á sínum tíma í herbúðum Liverpool en lék aðeins einn leik með félaginu.

Þá eru forráðamenn Middlesbrough við það að ganga frá kaupum á Neven Subotic og Alvaro Negredo ef marka má enska miðla.

Subotic lék lykilhlutverk í liði Dortmund undir stjórn Jurgen Klopp á sínum tíma er liðið vann þýska titilinn en tækifærin hafa verið af skornum skammt undir stjórn Thomas Tuchel hjá Dortmund.

Negredo lék í eitt ár með Manchester City og varð enskur meistari með liðinu ásamt því að hampa deildarmeistaratitilinum en hann yfirgaf félagið eftir aðeins eitt ár og gekk í raðir Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×