Donald Trump, næsti forseti Bandaríkjanna, talaði afar vel um Rex Tillerson, forstjória olíufélagsins Exxon Mobil í sjónvarpsviðtali í gær. Fastlega er gert ráð fyrir því að Tillerson verði utanríkisráðherra Trump.
Trump var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox News og þar hrósaði hann Tillerson í hástert fyrir alla „þá ótrúlegu samninga sem hann hefur gert.“
„Hann er í heimsklassa,“ sagði Trump. „Hann stýrir olíufélagi sem er um það bil tvöfalt stærra en næsti samkeppnisaðili.“
Tillerson hefur í gegnum tíðina stundað mikil viðskipti í Rússlandi og er sagður eiga í góðum samskiptum við Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Hefur hann meðal annars gagnrýnt refsiaðgerðir Vesturlanda gagnvart Rússum í tengslum við átökin á Krímskaga en þar hafa Bandaríkjamenn verið fremstir í flokki.
Gert er ráð fyrir því að Tillerson verði tilnefndur af Trump sem utanríkisráðherra í næstu viku en líklegt þykir að John Bolton, sem áður var sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum verði aðstoðarutanríkisráðherra.
Trump segir að tilvonandi utanríkisráðherra sinn sé "í heimsklassa“

Tengdar fréttir

Trump sagður ætla að skipa forstjóra olíufyrirtækis í embætti utanríkisráðherra
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, er sagður ætla að útnefna Rex Tillerson, forstjóra olíufyrirtækisins ExxonMobil, næsta utanríkisráðherra landsins.