Skoðun

Íslenskt siðferði – ein myndin enn

Birgir Guðjónsson skrifar
Læknisfræðin á að heita að vera í sífelldri framför með nýjum rannsóknaraðferðum, lyfjum, þræðingum, speglunum og skurðaðgerðum til að bæta eða lækna sjúkdóma. Þær standast ekki allar tímans tönn.

Læknar kalla yfir sig hetjuljóma þegar eitthvað nýtt heppnast en minna þegar illa fer eða þegar djarflegar ákvarðanir eru teknar um að beita ekki nýjum aðferðum vegna áhættu, vonlausra horfa, og viðurkenna þarf að lofaðar nýjungar hafa ekki reynst vel.

Forystumenn eru yfirleitt leiðandi á sínu sviði, ráðgjafar stjórnvalda, fulltrúar út á við og meðmælendur ungra lækna til sérnáms erlendis.

Sú „nýjung“ sem hvað mesta athygli vakti og í hvers sviðljósi læknar m.a. íslenskir böðuðu sig í var plastbarkaígræðsla sem reyndist einhver mestu afglöp svokallaðra framfara. Aðgerðin var gerð undir forystu ítalsks læknis á Karólínska sjúkrahúsinu, einhverri virtustu heilbrigðisstofnun Evrópu, jafnvel heimsins, án nokkurra fyrri dýratilrauna né formlegrar viðurkenningar vísinda- og siðanefnda. Grein um afrekið var birt í einu áhrifamesta læknatímariti í heiminum og gagnrýnendur segja nú fara með rangfærslur. Karólínska stofnunin telur þetta vera mikla hneisu og hafa skaðað álit sitt og kappkostar að reyna að endurreisa orðstír sinn.

Fjölmargir forystumenn í sænskri læknisfræði svo sem formaður Nóbelsnefndarinnar og rektor Karólínska hafa sagt af sér. Lögreglan rannsakar starf ítalska læknisins í nokkrum löndum.

Nokkrir íslenskir læknar í áhrifastöðum hérlendis og erlendis voru lykilmenn í þessu athæfi og hafa sagt skilmerkilega frá sinni þátttöku og stjórnun. Hátíðarsamkoma var haldin í Háskóla Íslands þeim til heiðurs. Þeir sitja enn sem fastast í sínum ráðgjafastöðum um sjúkrahús- og heilbrigðismál og láta ljós sitt skína.

Er þetta dæmigert fyrir ábyrgð og siðferði í Háskóla Íslands, sjúkrahúsi og heilbrigðiskerfinu.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×