Enski boltinn

Conte vill halda manninum sem Mourinho gat ekki notað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cuadrado spilaði vel með Juventus á síðasta tímabili.
Cuadrado spilaði vel með Juventus á síðasta tímabili. vísir/getty
Antonio Conte, nýr knattspyrnustjóri Chelsea, vill halda Kólumbíumanninum Juan Cuadrado hjá félaginu.

Chelsea keypti Cuadrado frá Fiorentina í febrúar 2015 en kólumbíska kantmanninum tókst ekki að vinna sér sæti í liði Chelsea.

Cuadrado lék sem lánsmaður með Juventus á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að vinna tvöfalt á Ítalíu.

Conte ætlar Cuadrado hins vegar hlutverk hjá Chelsea í vetur og vill halda honum hjá Lundúnaliðinu.

„Ég vildi fá hann þegar ég var knattspyrnustjóri Juventus. Hann kemur til okkar fljótlega og byrjar að æfa og spila með okkur,“ sagði Conte sem stýrði Juventus á árunum 2011-2014.

„Hann er leikmaður Chelsea og verður í okkar herbúðum. Ég læt ykkur vita ef eitthvað breytist,“ bætti Ítalinn við.

Cuadrado er lykilmaður í kólumbíska landsliðinu sem endaði í 3. sæti í Copa América 2016. Hann hefur alls leikið 56 landsleiki og skorað sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×