Erlent

Stjórnin segist hafa heimild

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Jeremy Wright, málflutningsmaður bresku ríkisstjórnarinnar
Jeremy Wright, málflutningsmaður bresku ríkisstjórnarinnar
Breska stjórnin segir að þegar tillaga um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu hafi þjóðin reiknað með því að ríkisstjórnin myndi hrinda niðurstöðunni í framkvæmd.

Jeremy Wright, aðalmálflutningsmaður bresku stjórnarinnar, segir að breska þingið hafi auk þess samþykkt lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna í fullri vitund um að ríkisstjórnin myndi fylgja niðurstöðunni eftir.

Þetta eru rök stjórnarinnar í málaferlum fyrir Hæstarétti Bretlands, sem hófust í gær. Þar er tekist á um það hvort stjórnin geti upp á eigið einsdæmi, í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í sumar, virkjað útgönguákvæði sáttmála Evrópusambandsins og samið um útgöngu.

Yfirréttur í London komst fyrir nokkrum vikum að þeirri niðurstöðu að breska þjóðþingið þyrfti að taka ákvörðunina. Stjórnin áfrýjaði þeirri niðurstöðu til Hæstaréttar, sem tók málið til meðferðar í gær og ætlar að gefa út úrskurð síðar í vikunni.

Wright sagði fyrir dómi í gær að þingið hafi, þegar lög voru sett um þjóðaratkvæðagreiðsluna, ekki sett neinn fyrirvara um að stjórnin eigi ekki að sjá um framkvæmd niðurstöðunnar. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×