Innlent

Skiptar skoðanir meðal framsóknarráðherra um flokksþing

Höskuldur Kári Schram skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Vísir/GVA
Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur ekki þörf á því að boða til flokksþings framsóknarmanna og kjósa um forystu flokksins. Umhverfisráðherra segir hins vegar sjálfsagt að flýta flokksþingi ef kosningum verður flýtt.

Staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugsson formanns Framsóknarflokks hefur verið til umræðu eftir að hann vék úr embætti forsætisráðherra í síðustu viku.

Höskuldur Þórhallsson telur að hann hefði einnig átt að segja af sér þingmennsku og Karl Garðarsson sagði í viðtali við RÚV í gær að flýta eigi flokksþingi framsóknarmanna til að forystan geti endurnýjað sitt umboð. Aðrir þingmenn flokksins hafa einnig viðrað svipaðar skoðanir.

Málið var rætt á þingflokksfundi framsóknarmanna í dag en þar var einnig upplýst að Sigmundur hefur ákveðið að fara í ótímabundið launalaust leyfi frá þingstörfum.

Ásmundur Einar Daðason formaður þingflokksins sagði í samtali við fréttastofu að það væri hins vegar stofnana flokksins en ekki þingmanna að taka ákvörðun um að flýta flokksþingi.

Gunnar Bragi Sveinsson vildi þó lítið tjá sig um málið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

„Við höfum forystu í flokknum og hún er ágæt,“ segir Gunnar Bragi.

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra segir hins vegar sjálfsagt að flýta flokksþingi ef kosningum verður flýtt.

„Það er sjálfsagt að flýta því sérstaklega ef kosningum verður flýtt. En eðli málsins samkvæmt flýtum við líka slíkum fundum okkar,“ segir Sigrún. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×