Fótbolti

FIFA staðfestir yfirburði strákanna okkar í norðri

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Aron Einar Gunnarsson er fyrirliði íslenska landsliðsins. Vísir/Getty
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, staðfesti í morgun það sem vitað var: Ísland er langbesta knattspyrnuþjóð Norðurlandanna samkvæmt styrkleikalista sambandsins.

Ísland er í 21. sæti á listanum og stendur í stað frá síðasta lista. Íslenska karlalandsliðið hefur aldrei verið jafn ofarlega á listanum.

Sé litið til Norðurlandanna þarf að leita aftur um sjö ár til að finna annan eins mun á efstu þjóðunum. Forysta Íslands á næstu Norðurlandaþjóð er 20 sæti en Svíar koma næstir í 41. sæti.

Danir eru svo í 46. sæti, Færeyjar og Norðmenn deila 84. sætinu og Finnar eru svo neðstir í 93. sæti.

Sjá einnig: Formlega krýndir kóngar Norðursins

Argentína er enn í efsta sæti listans en Brasilía hefur sætaskipti við Þjóðverja og er nú í öðru sæti en heimsmeistararnir í því þriðja.

Síle hoppar upp um tvö sæti og er í fjórða sæti en þar á eftir koma Belgía, Kólumbía, Frakkland, Portúgal, Úrúgvæ og Spánn.

Ísland er eins og áður hefur verið greint frá nú ofar en Holland sem er í 22. sæti. Írland, Tyrkland, Slóvakía, Ungverjaland, Bosnía og Bandaríkin eru svo í næstu sætum á eftir.


Tengdar fréttir

Viðeigandi endir á frábæru ári

Íslenska landsliðið kvaddi árið 2016 með 0-2 sigri á Möltu í vináttulandsleik í gær. Arnór Ingvi Traustason og Sverrir Ingi Ingason skoruðu mörkin í leik sem fer ekki í neinar sögubækur fyrir frábæra spilamennsku.

Formlega krýndir kóngar norðursins

Leikmenn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta urðu að þjóðhetjum á árinu 2016. Liðið kvaddi þetta sögulega ár með sigri á Möltu í vináttuleik. Strákarnir okkar spiluðu fleiri leiki en nokkru sinni fyrr, unnu fleiri leiki en áður, komust á stórmót og slógu þar í gegn og eru langbesta lið Norðurlanda. Sjö ár eru síðan önnur Norðurlandaþjóð hafði annað eins forskot á þá næstu á styrkleikalista FIFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×