Enski boltinn

Wenger ætlar að taka í spaðann á Mourinho

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
"Blessaður, gamli.“
"Blessaður, gamli.“ vísir/getty
Arsene Wenger segir að hann muni taka í hendina á José Mourinho fyrir leik Manchester United og Arsenal á laugardaginn.

Wenger og Mourinho eru litlir vinir og hafa verið duglegir að skjóta á hvorn annan í gegnum tíðina.

„Ég þarf ekki að lýsa sambandi okkar. Hann mun berjast fyrir sitt lið og ég fyrir mitt og það er fullkomlega eðlilegt,“ sagði Wenger á blaðamannafundi í dag. Hann segist ætla að taka í spaðann á Mourinho fyrir leikinn á Old Trafford.

„Að sjálfsögðu. Ég ber virðingu fyrir þessari hefð sem er svo mikilvæg í ensku úrvalsdeildinni.“

Wenger skaut samt létt á Mourinho og kvaðst vonast eftir því að leikurinn á laugardaginn yrði opinn og skemmtilegur.

„Það sem hrífur áhorfendur eru gæði leiksins. Við höfum séð nokkra leiki milli stórra liða í upphafi tímabils sem hafa ekki alveg staðið undir væntingum,“ sagði Wenger.

„Það er mikilvægt að þetta verði leikur í hæsta gæðaflokki því augu heimsbyggðarinnar verða á honum. Og það er mikilvægt að leikurinn verði góður fyrir orðspor ensku úrvalsdeildarinnar. Það er undir leikmönnunum á vellinum komið.“

Leikurinn á laugardaginn er sá fimmtándi á milli liða Wengers og Mourinho. Frakkanum hefur ekki enn tekist að vinna Portúgalann en hann fær tækifæri til að aflétta þeirri bölvun í hádeginu á laugardaginn.


Tengdar fréttir

Leikmenn United þeir launahæstu

Þrátt fyrir vandræði Manchester United er ekkert knattspyrnufélag í heiminum sem borgar leikmönnum sínum hærri laun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×