Enski boltinn

Ákvað að fara vegna vonbrigða með samningstilboð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Koeman og lærisveinar hans eru í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.
Koeman og lærisveinar hans eru í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. vísir/getty
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton, ákvað að yfirgefa Southampton í sumar eftir að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með samningstilboð frá félaginu.

Koeman tók við Southampton árið 2014 og náði frábærum árangri með Dýrlingana. Hann hafði áhuga á að halda áfram með Southampton en fór að hugsa sér til hreyfings eftir vonbrigði með samningstilboð frá félaginu.

„Við vorum ekki sammála um síðasta árið af samningnum mínum. Ég tjáði forráðamönnum félagsins að ég myndi vilja halda áfram og við hefðum tíma til ræða framtíðina á meðan á tímabilinu stóð,“ sagði Koeman í samtali við Gary Linekar á BBC.

„Þeir gerðu mér tilboð sem ég varð fyrir miklum vonbrigðum með,“ bætti Koeman við.

Hollendingurinn ræddi svo við forráðamenn Everton og komst á þá skoðun að þetta væri rétti tímapunkturinn til að færa sig um set.

Koeman skrifaði á endanum undir þriggja ára samning við Everton. Bítlaborgarliðið fór frábærlega af stað undir stjórn Koemans og fékk 13 stig út úr fyrstu fimm leikjum tímabilsins.

Everton hefur hins vegar gefið eftir og aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum sínum. Í síðustu umferð steinlá liðið fyrir Chelsea, 5-0.

Everton er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir 11 umferðir. Liðið fær Swansea City í heimsókn í næsta deildarleik sínum á laugardaginn.


Tengdar fréttir

Depay útilokar ekki Everton

Ronald Koeman vill fá hollenska sóknarmanninn í blátt. Sjálfur vildi hann lítið gefa út um það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×