Erlent

Öflugur jarðskjálfti reið yfir utan við Fukushima í Japan

Anton Egilsson skrifar
Jarðskjálftinn reið yfir við strendur Fukushima.
Jarðskjálftinn reið yfir við strendur Fukushima.
Öflugur jarðskjálfti reið yfir utan við strendur Fukushima í Japan nú fyrir skemmstu eða klukkan sex að morgni að staðartíma. Samkvæmt heimildum Bloomberg hefur flóðbylgjuviðvörun verið send út þar sem ölduhæð getur náð upp í allt að þrjá metra. Þá er einnig talin hætta á aurskriðum. 

Staðfest hefur verið að um allt að metra háar öldur séu sjáanlegar við strendur Fukushima. Viðvörun um hugsanlegar stærri öldur er enn í gildi. Fólk á nærliggjandi svæðum er hvatt til að færa sig hærra upp í landið. 

Japanska veðurstofan hefur sagt að jarðskjálftinn hafi mælst 7,4 að stærð. Jarðskjálftinn er sagður hafa verið á allt að 25 kílómetra dýpi . Tveir eftirskjálftar hafa riðið yfir í kjölfarið, annar þeirra mældist 5,4 að stærð en hinn 4,8. Búist er við fleiri eftirskjálftum á næstu klukkustundum. 

Enn er óljóst hve miklar skemmdir hafa orðið af völdum jarðskjálftans en einhverjar fregnir hafa borist um minniháttar meiðsl á fólki.

Töluvert umrót varð við skjálftann í Tókýó, höfuðborg Japans, en þar var fólk hvatt til að yfirgefa tiltekin strandsvæði. Þá á skjálftinn að hafa skokið byggingar í borginni en hún er staðsett um 240 kílómetra suðvestur af skjálftamiðjunni. 

Tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson er staddur í Tókýó og greinir frá því á Twitter síðu sinni að hann hafi fundið fyrir jarðskjálftanum.

Fukushima fór illa út úr jarðskjálfta árið 2011

Í mars árið 2011 varð Fukushima  mjög illa úti í kröftugum jarðskjálfta sem mældist 9,0 stig og flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið.

Hátt í 19 þúsund manns létu lífið í flóðbylgjunni sem skolaði heilum bæjum á brott. Enn er leitað líkum að 2.561 manns sem týndust. Þá þurftu um 160 þúsund manns að flýja frá Fukushima kjarnorkuverinu sem varð fyrir verulegum skemmdum vegna flóðbylgjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×