Erlent

Erdogan vill breytingar á Sameinuðu þjóðunum vegna Sýrlandsstríðsins

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands var harðorður í garð alþjóðasamfélagsins í ræðu sinni á ráðstefnu á vegum NATO í Istanbúl í dag. Þetta kemur fram í frétt CNN. Hann gagnrýndi þar sérstaklega öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem hann sagði hafa mistekist hrapallega í því að takast á við átökin í Sýrlandi sem og öðrum hnattrænum áskorunum.

Í ræðu sinni sagðist Erdogan efast um að hægt yrði að tryggja frið og öryggi í alþjóðasamfélaginu með núverandi uppbyggingu Sameinuðu þjóðanna og gagnrýndi hann að þau fimm ríki sem fast sæti hafa í öryggisráðinu gætu bundið hendur annarra ríkja með neitunarvaldi sínu. Benti hann á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu verið stofnaðar við lok seinni heimsstyrjaldarinnar og að ekki væri hægt að svara ógnum nútímans með svo fornri stofnun.

Erdogan notaði jafnframt tækifærið í ræðu sinni og gagnrýndi ríki heims fyrir stuðning sinn við kúrdíska uppreisnarmenn sem berjast við Ríki Íslams en tyrknesk yfirvöld flokka hópinn undir hryðjuverkamenn. Þá kallaði hann eftir því að ríki Evrópu myndu standa við flóttamannasamning sinn við Tyrkland frá því í mars á þessu ári og í auknum mæli aðstoða tyrknesk yfirvöld við að taka á móti flóttafólki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×