Skoðun

Lúxusvandamál

Guðmundur Franklín Jónsson skrifar
Íslandsbanki hefur bæst við efnahagsreikning ríkisins með ca. 1.000 starfsmenn. Fyrir á þjóðin Landsbankann með sínum ca. 1.000 starfsmönnum. Ekki virðast starfsmenn okkar hjá Landsbankanum hafa passað upp á verðmætin okkar nógu vel, og kom það best í ljós í einkasölunni á hlutafénu í Borgun.

En hvað er til ráða? Við vitum af fyrri reynslu að ríkisrekstur á fjármálafyrirtækjum hefur tilhneigingu til spillingar. Og ekki viljum við að núverandi stjórnvöld skipti bönkunum á milli sinna flokksgæðinga, með hinni frægu helmingaskiptareglu, því þá er voðinn vís.

Ég vil meina, að erfitt sé að lifa af á Íslandi fyrir smáfyrirtæki í frjálsri samkeppni ef tvær eða þrjár grúppur ráða á bankamarkaði. Þess vegna verðum við að fara öðruvísi að í þetta sinn.

Dreifðasta eignarhald í heimi

Ein einföld aðferð gæti verið sú að dreifa öllum hlutabréfum sem ríkið á í bönkunum endurgjaldslaust, á tilgreindu tímabili til hvers og eins núlifandi Íslendings, ca. 330.000 bréf í hvorum banka, skrá bankana svo í kauphöllina og láta markaðinn sjá um rest. Þetta ferli væri hægt að gera á 5 til 10 árum, dreifa 5% til 20% af hlutabréfum í bönkunum á hverju ári.

Af hverju er þetta sanngjarnt? Vegna þess að fólkið í landinu á bankana hvort sem er í gegnum ríkið og ber ábyrgð á endanum á öllum innlánum bankanna. Vonandi yrði þá stjórnað lýðræðislega með gegnsæi að leiðarljósi og af hverju ættu eigendurnir ekki að njóta ávaxtanna?

Tvo varnagla myndi ég þó að setja og annar er sá að enginn einn aðili gæti átt meira en 5% og hinn er að við þyrftum að aðskilja fjárfestingabankaþjónustu frá almennum bankarekstri. Ríkið tæki svo sitt í gegnum skattheimtu á söluhagnað hlutabréfa. Við fáum víst ekki oft tækifæri til þess að leysa úr svona lúxusvandamáli.




Skoðun

Sjá meira


×