Enski boltinn

Watford með ótrúlega endurkomu á Ólympíuvellinum | Öll úrslit dagsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Watford fagnaði fyrsta sigri vetrarins í ótrúlegum 4-2 sigri á West Ham á Ólympíuvellinum í 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag eftir að hafa lent 0-2 undir.

Michail Antonio kom West Ham 2-0 yfir á fyrstu 33. mínútunum með tveimur mörkum eftir undirbúning Dimitri Payet en gestirnir voru ekki á þeim buxunum að gefast upp.

Odion Ighalo minnkaði muninn skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og félagi hans í framlínunni, Troy Deeney jafnaði með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks.

Franski miðjumaðurinn Etienne Capoue kom Watford yfir með þriðja marki sínu í deildinni á 53. mínútu og tíu mínútum síðar bætti Jose Holebas við fjórða marki Watford.

Lauk leiknum með 4-2 sigri Watford eftir sex marka spennutrylli en þetta var fyrsti sigur liðsins í deildinni.

Jóhann Berg Guðmundsson var í fyrsta sinn í byrjunarliði Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag en liðið þurfti að sætta sig við svekkjandi jafntefli gegn Hull.

Steven Defour kom Burnley yfir um miðbik seinni hálfleiks en Robert Snodgrass jafnaði metin fyrir Hull á 95. mínútu og bjargaði stigi.

Þá unnu Crystal Palace og Bournemouth fyrstu sigra tímabilsins. Bournemouth vann 1-0 sigur á West Brom á heimavelli en Palace-menn sóttu þrjú stig til Middlesborough.

Komst Christian Benteke á blað með fyrsta marki sínu fyrir Crystal Palace en Wilfried Zaha skoraði sigurmark gestanna eftir að Daniel Ayala jafnaði metin fyrir Boro á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×