Erlent

Handteknir í Þýskalandi grunaðir um að hópnauðga unglingsstúlkum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tilkynningum um kynferðisbrot á nýársnótt hefur rignt yfir þýsku lögregluna síðustu daga.
Tilkynningum um kynferðisbrot á nýársnótt hefur rignt yfir þýsku lögregluna síðustu daga. vísir/getty
Þrír Sýrlendingar hafa verið handteknir í smábænum Weil am Rhein í Suður-Þýskalandi grunaðir um að hafa hópnauðgað tveimur unglingsstúlkum á nýársnótt.

Einn þeirra handteknu er 21 árs en hinir tveir eru 14 ára. Þá eru stúlkurnar sem þeir eru grunaðir um að hafa brotið gegn 14 og 15 ára.

Lögregluyfirvöld telja að stúlkunum hafi verið haldið nauðugum í nokkrar klukkustundir heima hjá eldri manninum þar sem þremenningarnir eiga svo að hafa nauðgað þeim. Sakborningarnir hafa verið í haldi lögreglu í nokkra daga en ekki var sagt frá handtökunum í þýskum fjölmiðlum fyrr en í gær.

Lögreglan leitar fjórða mannsins sem grunaður er um aðild að nauðgununum en hann er 15 ára gamall og bróðir eldri mannsins sem er í haldi.

Sakborningarnir eru ekki sýrlenskir flóttamenn heldur hafa búið lengi í Evrópu, í Þýskalandi, Sviss og Hollandi.

Þá er ekki talið að nauðganirnar tengist grófum árásum á konur við aðallestarstöðina í Köln á nýársnótt og í fleiri þýskum borgum en tilkynningum um kynferðisbrot umrædda nótt hefur rignt yfir þýsku lögregluna síðustu daga.


Tengdar fréttir

Ofbeldi gegn konum í Köln vekur mikla reiði

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt margvísleg mistök í tengslum við kynferðisofbeldi sem tugir kvenna urðu fyrir á gamlársdag. Innanríkisráðherra Þýskalands krefst skýringa. Lögreglustjórinn segist ekki ætla að segja af sér.

Lögreglan í Köln réði ekki við ástandið

Í skýrsla lögreglunnar í Köln um árásirnar á nýársnótt segir að lögregluþjónar hafi ekki ráðið við ástandið sem skapaðist, svo mikið var um að vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×