Menning

Fuglsblundur tekinn milli fjögur og sex

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Mireya  og Noor Ibrahim frá Indónesíu í Áhaldahúsinu.
Mireya og Noor Ibrahim frá Indónesíu í Áhaldahúsinu. Vísir/Anton Brink
„Hér er unnið nánast allan sólarhringinn. Kannski tekinn smá fuglsblundur milli fjögur og sex á morgnana,“ segir Mireya Samper myndlistarkona glaðlega, stödd í Garðinum suður með sjó þar sem hún stýrir listahátíðinni Ferskir vindar.



Hin sænska Amanda Billberg dansari við æfingar.
Hátíðin byrjaði 15. desember með opnum vinnustofum. Fimmtíu listamenn af tuttugu þjóðernum voru mættir til leiks og síðan hafa verið kynningarkvöld og pallborðsumræður oft í viku, opin almenningi.



Þjóðverjinn Karl Menzen einbeittur við járnsmíðina.
Svo byrja sýningar á laugardaginn, 9. janúar. „Þetta er alveg fimm vikna prógramm, lifandi starf,“ segir Mireya sem hefur haldið svona listahátíðir í Garðinum þrisvar áður.





Yoshiko Maruyama frá Japan vinnur innsetningu í Garðskagavita.
„Við vorum mjög heppin núna. Fengum öll inni í elliheimilinu sem hefur verið lokað í tvö ár en fólk er að vinna í Áhaldahúsinu, samkomuhúsinu, Garðskagavita og úti um allt. Svo erum við með stóran sýningarsal við hliðina á bæjarskrifstofunum.“





Frakkinn Laurent Reynès lætur ekki kuldann aftra sér frá því að höggva í stein í skúlptúrgarðinum.
Sveitarfélagið Garðurinn leggur til íveruhúsnæði fyrir listafólkið ásamt vinnu- og sýningaraðstöðu.





Manuela Zervudachi frá Bretlandi vinnur í tré með sporjárn og hamar að vopni.
Listamennirnir borga ferðirnar til og frá landinu en annað fá þeir frítt, svo sem mat og efni og Mireya sér um að finna styrktaraðila fyrir því.





Það útkrefur þolinmæði að letra línur í stein en Kohnosuke Iwasaki frá Japan skortir hana ekki.
„Það eru tvisvar til þrisvar fleiri sem vilja koma hingað, þó hef ég aldrei auglýst,“ segir hún. „En ég er sjálf mikið að sýna úti um allan heim, er alltaf á veiðum og vel fólk til að koma hingað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.