Undirbúningur fyrir næsta tímabil í NFL-deildinni hófst strax í nótt hjá þeim liðum sem eru úr leik.
San Francisco 49ers rak þjálfarann sinn, Jim Tomsula, eftir aðeins eitt ár í starfi og þjálfari Cleveland Browns, Mike Pettine, fékk líka sparkið.
Fastlega er búist við því að fleiri fái sparkið en fyrir viku síðan var Chip Kelly rekinn frá Philadelphia Eagles. Þrír þjálfarar hafa því þegar verið reknir.
Staða Tom Coughlin, þjálfara NY Giants, og Sean Payton, þjálfara New Orleans, er sögð afar veik. Svo veik reyndar að þegar er byrjað að orða Payton við lausu störfin tvö.
Önnur lið sem sögð eru ætla að reka þjálfarann sinn eru Miami Dolphins, Tennessee Titans, Indianapolis Colts og San Diego Chargers. Enn fleiri þjálfarar gætu þess vegna fokið þannig að það verður fjör á þjálfaramarkaðnum næstu vikur.
Svo má geta þess að Tennessee var með lélegasta árangurinn í deildinni og fær því að velja fyrst í nýliðavali deildarinnar.
Tveir þjálfarar reknir strax eftir leik

Tengdar fréttir

Fjör í lokaumferð NFL-deildarinnar
Það liggur nú fyrir hvaða lið mætast í fyrstu umferðinni í úrslitakeppni NFL-deildarinnar en lokaumferðin í deildarkeppninni fór fram í gær.